Íslandsmeistarar Þórs/KA komust áfram í 32-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þrátt fyrir jafntefli gegn Ajax í dag.
Fyrir leikinn voru Þór/KA og Ajax jöfn að stigum í riðlinum eftir tvo sigra og því um hreinan úrslitaleik að ræða um hvort liðið færi áfram.
Svo fór að ekkert mark var skorað í leiknum og jafntefli niðurstaðan. Liðin jöfn að stigum með jafna markatölu en Ajax í fyrsta sætinu á fleiri mörkum skoruðum, sex á móti fimm mörkum Norðanstelpna.
Tvö bestu liðin í öðru sæti í riðlunum 10 fara hins vegar líka áfram og var Þór/KA annað þeirra. Þær verða því í pottinum þegar dregið verður í 32-liða úrslit á föstudag.

