Erlent

Fjórir hið minnsta særðir eftir skotárás á Ítalíu

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Macerata á Ítalíu.
Frá Macerata á Ítalíu. Vísir/Getty
Fjórir hið minnsta hafa særst eftir að árásarmaður, einn eða fleiri, skaut úr bíl á vegfarendur í ítalska bænum Macerata í morgun.

Skotið var á vegfarendur á nokkrum stöðum í bænum, meðal annars nálægt lestarstöðinni. Ítalska stöðin Rai greinir frá þessu.

Borgarstjóri Macerata hefur beint þeim orðum til íbúa að halda sig innandyra. BBC  greinir frá því að talið sé að tveir menn hafi verið í bílnum, svörtum Alfa Romeo. Einn maður hefur nú verið handtekinn vegna málsins.

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að árásin hafi beinst að innflytjendum. Skothljóð hafa heyrst við Via Spalato og Via dei Velini, en þar hefur lögregla rannsakað morðið á átján ára stúlku sem fannst látin síðastliðinn miðvikudag.

Karlmaður frá Nígeríu er í haldi lögreglu vegna málsins og segja ítalskir fjölmiðlar að málin tengist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×