Brot á loftgæðareglugerð hefur engar beinar afleiðingar
Áætlað er að rekja megi áttatíu ótímabær dauðsföll á ári hér á landi til loftmengunar vegna svifryks en færri en fimm dauðsföll vegna köfnunarefnisdíoxíðs og ósons. Köfnunarefnisdíoxíð, sem finnst í útblæstri bifreiða, má aðeins fara yfir heilsuverndarmörk sjö daga á ári en hefur farið yfir þessi mörk sex daga það sem af er 2018 eins og kom fram í fréttum okkar á mánudag.
Svifrykið hefur líka verið óvenjulega oft yfir heilsuverndarmörkum sem eru 50 míkrógrömm á rúmmetra andrúmslofts. Fram til ársins 2016 mátti svifrykið vera yfir heilsuverndarmörkum 7 daga á ári en með breytingu á reglugerð sem tók gildi í nóvember það ár var dögunum fjölgað upp í 35 á ári.
Sigrún Magnúsdóttir þáverandi umhverfisráðherra setti hinar nýju reglur en ástæðan var breytt viðmið Evrópusambandsins í tilskipun um loftgæði.
„Evrópusambandið hafði áður verið með mörkin í þrjátíu og fimm en ákvað að trappa það niður í sjö skipti á áratug, það var ákveðið fyrir árið 2000. Svo skipti Evrópusambandið um skoðun og taldi þetta ekki raunhæft og mörg ríki Evrópu sögðu, við náum þessu aldrei. Þannig að það var í raun ákveðið að fara til baka í þrjátíu og fimm skipti,“ segir Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun.
En hvaða afleiðingar hefur það þegar dagafjöldi svifryks eða köfnunarefnisdíoxíðs yfir heilsuverndarmörkum fer yfir hámark reglugerðarinnar? Í raun og veru gerist ekki neitt enda er ekki kveðið á um nein viðurlög eða beinar aðgerðir í reglugerðinni sjálfri eða lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem reglugerðin vísar í varðandi viðurlög. Það má hins vegar ímynda sér að einstaklingar eða lögaðilar gætu mögulega reynt að höfða mál til að krefjast viðurkenningar á rétti til að njóta loftgæða í samræmi við efni reglugerðarinnar.
Niðurstaðan í díselmálinu í Þýskalandi kallast á við íslenskan veruleika
Þegar stjórnsýsludómstóllinn í Leipzig í Þýskalandi komst að þeirri niðurstöðu í lok febrúar að þýskar borgir mættu banna díselbíla var niðurstaðan reist á þeirri forsendu að borgirnar gætu innleitt bannið til þess að tryggja loftgæði samkvæmt áðurnefndri loftgæðatilskipun Evrópusambandsins sem íslenska reglugerðin er byggð á og eldri tilskipun um sama efni.
Í skýrslu verkfræðistofunnar Eflu um uppruna svifryks sem kom út í fyrra var lagt til að það yrði kannað hvort mögulegt væri að takmarka umferð díselbíla með það fyrir augum að draga úr sóti sem er stór hluti svifryksins. Slíkar hugmyndir hafa hins vegar fengið lítinn hljómgrunn hjá oddvitum þeirra flokka sem bjóða fram í Reykjavík. Að þessu sögðu er enginn pólitískur áhugi fyrir slíku banni.
Þorsteinn Jóhannsson hjá Umhverfisstofnun segir að innan skamms verði þó sveitarfélög líklega komin með betri lagaheimildir til að innleiða slíkt bann með það fyrir augum að tryggja loftgæði.
„Það er verið að vinna að breytingum á umferðarlögum núna sem miða að því að veita yfirvöldum, sveitarfélögum eftir atvikum, heimildir til þess að takmarka umferð bíla, takmarka þá umferð díselbíla þá hugsanlega sérstaklega, eða setja gjald á nagladekk og þetta eru allt aðgerðir sem miða að því að lágmarka mengun,“ segir Þorsteinn.
Nú þegar hafa margar evrópskar borgir áform um að banna umferð díselbíla að hluta eða að öllu leyti til að draga úr loftmengun. Hér má nefna Osló, Berlín, Stuttgart, Hamborg, París, London, Madríd, Róm og Aþenu.
Tengdar fréttir
Mikil hætta á svifryki í borginni: Hvetja til þess að fólk noti frekar almenningssamgöngur en einkabílinn
Veðrið á höfuðborgarsvæðinu er þannig að loftgæði geta orðið verulega slæm.
Vegagerðin kveðst vonast til að svifryk minnki á næstunni
Kröfur til slitþols vega hafa aukist undanfarin misseri. Áhrifin eiga eftir að koma enn skýrar fram, vonandi í minna svifryki, segir verkfræðingur hjá Vegagerðinni. Ólíklegt að dragi úr svifryki með steyptum götum.
Hár styrkur svifryks í Reykjavík
Styrkur svifryks er hár í dag samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Hringbraut og Eiríksgötu.
Varhugavert að fara út að skokka á verstu dögum
Sex daga í ár hefur svifryk í Reykjavík farið yfir sólarhringsheilsumörk. Svifrykið getur aukið líkur á blóðtöppum og hjartaáföllum. Lagasetningu þarf til að hægt sé að draga úr umferð. Unnið er að breytingum á umferðarlögum.
Þúsundir þyrftu að leggja einkabílnum til að það hefði áhrif á svifryksmengun
Borgin sendi frá sér fréttatilkynningu skömmu fyrir hádegi í dag þar sem varað er við háum styrk svifryks. Fyrir helgi var einnig varað við svifryksmengun en þegar veður er gott líkt og nú, engin úrkoma og hægur vindur, eykst hættan á slíkri mengun.
Stofnbrautirnar úðaðar gegn svifryki
Í nótt voru fjölfarnar götur rykbundnar til þess að bæta loftgæði í borginni.
Er fýsilegt að banna dieselbíla í Reykjavík til að draga úr loftmengun?
Borgarstjórar í Þýskalandi íhuga nú viðbrögð við dómi stjórnsýsludómstólsins í Leipzig um að borgum þar í landi sé heimilt að banna díselbíla til að draga úr loftmengun. Svifryk í Reykjavík hefur reglulega verið yfir heilsuverndarmörkum. Verkfræðistofa sem rannsakaði svifryksmengunina lagði til takmarkanir á umferð díselbíla í borginni.