Enski boltinn

Messan: „Þetta er algjör dómaraskandall og klárt rautt spjald á Mané“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool-maðurinn Sadio Mané var heppinn að fá ekki rauða spjaldið um helgina þegar Liverpool vann 2-1 endurkomusigur á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni.

Sadio Mané fékk gult spjald fyrir að reyna að fiska vítaspyrnu í fyrri hálfleik og seinna í leiknum kom upp atvik þar sem hann tók boltann greinilega viljandi með hendi.

Ríkharð Guðnason og félagar í Messunni tóku fyrir þessi tvö atvik og bæði Ólafur H. Kristjánsson og Mikael Nikulásson höfðu skoðun á því hvort Mané átti að fá rautt eða ekki.

„Samkvæmt ströngustu lagatúlkun þá er þetta annað gult spjald en ég er ánægður með það að dómarinn skuli sjá í gegnum fingur sér með þetta því hann hlýtur að segja við hina leikmennina sem hópast að honum: Það var brot en ég taldi það ekki nægilegt til að dæma það. Við skulum aðeins vera sanngjarnir,“ sagði Ólafur H. Kristjánsson.

„Ég get alveg skilið það að Palace menn vildu fá seinna gula spjaldið á hann,“ sagði Ólafur.

„Þetta er algjör dómaraskandall,“ sagði Mikael Nikulásson um þetta seinna atvik og bætti svo seinna við:

„Ég er ekki Palace-maður en fyrir mér var þetta bara klárt spjald. Hann tekur boltann bara til sín með hendinni. Ég er sammála því að þetta gat verið aukaspyrna en hann dæmdi ekki aukaspyrnu. Þá er þetta bara því miður rautt spjald,“ sagði Mikael Nikulásson.

„Þetta hefur hrikaleg áhrif á leikinn. Sadio Mané var besti leikmaður Liverpool í þessum leik en hann átti að fjúka útaf þarna. Svo tekur Klopp hann útaf tveimur mínútum seinna,“ sagði Mikael.

Það má sjá alla umfjöllun Messunnar um spjaldið og ekki spjaldið á Sadio Mané í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×