Yfirvöld í Kaliforníu segja nú að samtals 31 hafi látist af völdum kjarreldanna sem geisað hafa í ríkinu undanfarna daga. Þá er yfir 200 manns saknað. Þetta sagði Kory Honea, lögreglustjóri í Butte-sýslu í norðurhluta Kaliforníu, á blaðamannafundi seint í gærkvöldi að bandarískum tíma.
Sjá einnig: Draumur Íslendings í Paradís lifir enn
Sex til viðbótar hafa fundist látnir af völdum Camp-eldsins í norðurhluta ríkisins, sem lagt hefur bæinn Paradise í rúst. Samtals hafa því 29 látist vegna eldanna í og við bæinn. Jafnmargir hafa nú farist í Camp-eldinum og í mannskæðasta eldsvoða ríkisins frá upphafi, Griffith Park-eldinum árið 1933.
Tveir eru auk þess látnir vegna Woolsey-eldsins sem logar í grennd við Los Angeles. Samkvæmt frétt BBC hafa um 250 þúsund manns þurft að flýja heimili sín í Kaliforníu vegna eldanna.
Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, hefur hvatt Donald Trump Bandaríkjaforseta til að lýsa yfir hamfaraástandi í ríkinu, sem myndi tryggja viðbragðsaðilum frekara fjármagn frá alríkinu.
Trump hefur þó kennt yfirvöldum í Kaliforníu um umfang eldanna. Hann lýsti því yfir um helgina að stjórnun á skóglendinu væri ábótavant og því hefðu eldarnir breiðst svo hratt út. Þá hefur hann hótað að stöðva fjárútlát til ríkisins í baráttu við eldana.

