Innlent

Læknar eiga erfitt með að leita sér lækninga

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Það er fremur óvenjulegt fyrir lækna að ræða sína eigin heilsu á Læknadögum, sem haldnir eru árlega, því þar er heilsa annarra yfirleitt til umfjöllunar.

„Læknar eru upp til hópa mjög heilsuhraust fólk,“ segir Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir.

„Þeir hafa áhuga á heilsu og vita mikið um heilsuna. En þeir geta veikst eins og aðrir - og streitan var til umræðu í morgun því við erum undir mjög miklu álagi og því geta fylgt sjúkdómar.“

Vaktavinna, mikil yfirvinna, mikil ábyrgð, hraði og flókið skipulag er meðal álagsþátta í starfi lækna.

„Læknar eru mjög hátt á blaði hvað varðar streitu. Eins og annað framsækið, vel gefið fólk, sem hlífir sér ekki. Þar sem er löngun til að gera vel og mikið um samskipti í starfinu.“

En eins og Jón Eyjólfur Jónsson, yfirlæknir á Landspítalanum bendir á þá skera læknar sig úr hvað varðar það að leita sér lækninga.

„Við eigum ekkert erfiðara með að veikjast, við gerum það með sama hraða og aðrir og af sömu tíðni, en við eigum oft erfiðara með að fara með það til kollega og reynum því sjálfir að lækna okkur.“

En þróunin er þó í rétta átt og virðast læknar farnir að huga betur að eigin heilsu. Ólafur segir lækninn kominn af stallinum.

„Læknar eru orðnir mannlegri og þjoðin upplýst. Nú gengur læknum betur að upplýsa ef álagið er of mikið og leitar sér frekar hjálpar," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×