Enski boltinn

Stuðningsmenn Everton sungu rasíska söngva um eigin varnarmann

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mina kostaði Everton 28 milljónir punda
Mina kostaði Everton 28 milljónir punda vísir/getty
Everton rannsakar meint kynþáttaníð stuðningsmanna félagsins í garð þeirra eigin varnarmanns, Yerry Mina.

Kick It Out, góðgerðarfélag á Englandi sem hefur það að markmiði að beita sér gegn kynþáttaníði í fótbolta, hafði samband við félagið í gær vegna myndbands sem sýnir stuðningsmenn Everton syngja rasíska söngva á leik Everton og Manchester City um helgina.

Félagið hóf rannsókn á málinu í samstarfi við Kick It Out.

Söngvarnir innihalda texta sem byggir á rasískum staðalímyndum. Þar er meðal annars talað um að Mina sé eiturlyfjafíkill og sungið um stærð getnaðarlims hans.



Everton sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöld til The Times þar sem stuðningsmenn eru varaðir við því að félagið líði ekki kynþáttaníð af neinum hætti.

„Félagið hefur fengið upplýsingar um myndband sem var sett á samfélagsmiðla af stuðningsmannafélagi sem tengist Everton ekki. Við erum í samstarfi við Kick It Out að vinna að rannsaka málið frekar,“ sagði í tilkynningunni.

Kick It Out hefur varað stuðningsmenn við því að ef lagið heyrist úr stúkunni þá verði stuðningsmennirnir sem það syngja settir í bann.

Kólumbíumaðurinn Mina kom til Everton frá Barcelona í sumar en spilaði sinn fyrsta leik ekki fyrr en í nóvembermánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×