Erlent

Duterte langar að stíga til hliðar

Samúel Karl Ólason skrifar
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Vísir/AP
Hinn umdeildi forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, er tilbúinn til þess að stíga til hliðar ef sonur fyrrverandi einræðisherra Filippseyja Ferdinand Marcos tekur við af honum. Sonurinn, sem heitir sömuleiðis Ferdinand Marcos, tapaði í kosningu til embættis varaforseta árið 2016 en hefur kært niðurstöðuna og vonast til þess að taka við embættinu af Leni Robredo, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Filippseyjum.

Duterte, sem hefur lýst yfir að hann sé óánægður með að hafa ekki tekst að draga nægjanlega úr notkun fíkniefna og spillingu í Filippseyjum, vill ekki að Robredo taki við sem forseti. Hann vill að Marcos, sem er einnig þekktur sem „Bongbong“ taki við af sér.

Marcos hefur haldið því fram að Robredo hafi svindlað í kosningunum og Hæstiréttur Filippseyja hefur úrskurðað að atkvæðin verði talin á nýjan leik. Robredo segist hins vegar hafa unnið á sanngjarnan hátt.

Samkvæmt Reuters sagði talsmaður Duterte í gær að forsetann langaði svo sannarlega að hætta, ef „hæfur leiðtogi“ myndi taka við af honum. Marcos hefur þakkað Duterte fyrir traustið en hvetur forsetann til að sitja út kjörtímabil sitt. Kjörtímabil Duterte er til 2020.

 


Tengdar fréttir

Duterte segist hafa drepið mann sem táningur

Forsetinn, sem staddur er á fundi APEC, hótaði jafnframt að slá til starfsmanna Sameinuðu þjóðanna sem hafa mannréttindamál á sinni könnu, ef þeir yrðu á vegi hans.

Duterte gagnrýndur fyrir koss

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur sætt gagnrýni eftir að hann kyssti konu á munninn á fjöldafundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×