Á fundinum ræddu þeir einnig að skipuleggja annan leiðtogafund Jong-un og Donald Trump Bandaríkjaforseta sem fyrst. Pompeo sagði á Twitter-reikningi sínum að ferðin hafi verið ánægjuleg og löndin tvö héldu áfram að ná árangri.
Had a good trip to #Pyongyang to meet with Chairman Kim. We continue to make progress on agreements made at Singapore Summit. Thanks for hosting me and my team @StateDeptpic.twitter.com/mufyOKkDLw
— Secretary Pompeo (@SecPompeo) 7 October 2018
Eftir fund sinn í Norður-Kóreu hélt Pompeo til Suður-Kóreu þar sem hann hitti Moon Jae-in, forseta landsins. Á fundi þeirra sagðist Pompeo hafa rætt næstu skref norðursins í átt að kjarnorkuafvopnun við Jong-un og möguleikann á því að bandarísk yfirvöld myndu hafa fylgjast náið með þeim aðgerðum.
Þá samþykktu þeir að mynda starfshóp til þess að ræða ferlið í átt að kjarnorkuafvopnun og skipuleggja næsta leiðtogafund. Í tilkynningu frá upplýsingafulltrúa Moon segir jafnframt að báðar hliðar hafi samþykkt að halda áfram viðræðum varðandi tímasetningu næsta fundar.
Þessi heimsókn Pompeo þykir hafa gengið mun betur en sú síðasta en hann heimsótti Pyongyang í júlí síðastliðnum. Eftir ferð sína lýsti hann því yfir að árangur hefði náðst í viðræðum en þeim fullyrðingum var fljótlega hafnað af fjölmiðlum í landinu og sögðu þeir Pompeo hafa komið fram með ósanngjarnar kröfur.