Skoðun

Staða barna í íslensku samfélagi

Salvör Nordal skrifar
Í dag er alþjóðadagur barna en þennan dag árið 1989 samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samning um réttindi barnsins eða Barnasáttmálann. Eitt af markmiðum frumvarps til breytinga á lögum um umboðsmann barna, sem nú liggur fyrir Alþingi, er að skerpa á hlutverki umboðsmanns í innleiðingu Barnasáttmálans sem lögfestur var hér á landi árið 2013. Lagt er til að embættinu verði falið að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa hverju sinni í samvinnu við ýmsa aðila. Eiga þau gögn að liggja til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna. Sambærilegt markmið var sett í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var fyrr á þessu ári þar sem jafnframt er kveðið á um að embættið setji á fót sérfræðihópa barna þar sem leitað verður sjónarmiða þeirra um þá þjónustu sem þeim stendur til boða og tillögum þeirra að úrbótum.

Vönduð tölfræðileg gögn eru mikilvægur grunnur góðrar stefnumótunar og því hefur embættið hafið samstarf við Hagstofuna um að greina sérstaklega gögn sem snúa að börnum. Hagstofan birti í vor á vef sínum margvíslegar upplýsingar úr sínum gögnum um stöðu barna í íslensku samfélagi. Töluverða athygli vakti mikil þátttaka barna á íslenskum vinnumarkaði og hélt umboðsmaður barna ásamt Vinnueftirlitinu fund fyrir um tveimur vikum þar sem gerð var frekari grein fyrir stöðu barna á íslenskum vinnumarkaði, slysaskráningu, upplýsingum sem embættið hefur safnað um vinnuskóla sveitarfélaganna og frekari upplýsingum um atvinnuþátttöku barna frá Hagstofunni. Á fundinum voru einnig fulltrúar stofnana. sveitarfélaga, atvinnulífsins, stéttarfélaga og börn úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna til að ræða um reynslu barna og nauðsynlegan undirbúning fyrir þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Þessi fundur er dæmi um þá samræðu sem umboðsmaður barna hyggst standa fyrir í íslensku samfélagi um stöðu barna, þar sem vandaðar greiningar liggja til grundvallar, en ekki síst raddir barnanna sjálfra og áherslur þeirra.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×