Erlent

Bandaríkin, Rússland og Sádi-Arabía sameinuðust gegn loftslagsskýrslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá COP24-loftslagsráðstefnunni í Katowice í Póllandi.
Frá COP24-loftslagsráðstefnunni í Katowice í Póllandi. Vísir/EPA
Fulltrúar Bandaríkjanna, Rússlands, Sádi-Arabíu og Kúveit komu í veg fyrir að loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem nú fer fram í Póllandi samþykkti ályktun þar sem nýrri vísindaskýrslu um áhrif 1,5°C hnattrænna hlýnunar hefði verið fagnað.

Skýrsla milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar kom út í nóvember. Aðildarríkin höfðu óskað eftir að hún yrði tekin saman eftir að samþykkt var í Parísarsamkomulaginu árið 2015 að reyna að halda hlýnun innan við 1,5°C miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu.

Niðurstöður skýrslunnar vöktu mikla athygli, ekki síst að heimsbyggðin sé víðsfjarri því að ná 1,5°C markmiðinu. Miðað við núverandi losun mannkynsins verði hlýnunin nær 3°C fyrir lok aldarinnar. Draga þurfi hratt úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að hægt verði að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.

Þegar fulltrúar á loftslagsráðstefnunni í Katowice í Póllandi ætluðu að álykta um að þeir tækju skýrslunni opnum örmum andmæltu fulltrúar ríkjanna fjögurra. Þeir kröfðust þess að í ályktuninni segðist fundurinn veita skýrslunni „eftirtekt“.

Kröfurnar leiddu til langdreginna samningaviðræðna um málamiðlun um orðalag ályktunarinnar. Allt kom þó fyrir ekki. Bandaríkjamenn, Rússar, Sádar og Kúveitar sátu fastir við sinn keip og komu í veg fyrir að fundurinn samþykkti nokkuð um vísindaskýrsluna.

Enn er þó ekki loku fyrir það skotið að þegar ráðherrar mæta til fundarins nú í vikunni muni þeir aftur reyna að gera skýrsluna að miðpunkti ráðstefnunnar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Bandaríkin voru leiðandi þegar Parísarsamkomulagið var fyrst gert í tíð Baracks Obama fyrrverandi forseta. Eftir að Donald Trump tók við sem Bandaríkjaforseti hefur ríkisstjórn hans tilkynnt um að hún ætli að draga sig úr samkomulaginu og dregið til baka nær allar loftslagsaðgerðir heima fyrir. Bandaríkin senda enga háttsetta embættismenn á loftslagsráðstefnuna að þessu sinni.


Tengdar fréttir

Losun koltvísýrings jókst aftur eftir stutt hlé

Vonir höfðu vaknað um að losun gróðurhúsalofttegunda hefði náð jafnvægi eftir nær óbreytta losun síðustu ár. Ríki heims þurfa að girða sig verulega í brók til að hægt verði að koma í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×