Sænski landsliðsmaðurinn Sebastian Larsson er búinn að semja við AIK í heimalandinu og verður hann því liðsfélagi Hauks Heiðars Haukssonar. Larsson kemur til Svíþjóðar frá enska B-deildarliðinu Hull þar sem hann lék 40 leiki á nýafstaðinni leiktíð.
Larsson er nú ásamt sænska landsliðinu á HM í Rússlandi en þessi 33 ára gamli miðjumaður hefur leikið 100 landsleiki fyrir Svíþjóð.
Hann hefur aldrei leikið í sænsku úrvalsdeildinni þar sem hann var aðeins 16 ára gamall þegar hann var keyptur frá uppeldisfélaginu, Eskilstuna, til enska stórliðsins Arsenal.
Larsson náði aldrei að vinna sér fast sæti í aðalliði Arsenal en átti góða spretti með Birmingham og Sunderland þegar þeirra liða naut við í ensku úrvalsdeildinni. Larsson kveður nú enska boltann eftir sautján ára veru en þar af lék hann ellefu tímabil í úrvalsdeildinni.
Fótbolti