Erlent

Segir Trump hafa seinkað brottflutningi hermanna frá Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Lindsey Graham fyrir utan Hvíta húsið í gær.
Lindsey Graham fyrir utan Hvíta húsið í gær. AP/Pablo Martinez Monsivais
Þingmaðurinn Lindsay Graham segir að Donald Trump hafi ákveðið að seinka brottflutningi hermanna Bandaríkjanna frá Sýrlandi. Graham, sem hefur lengi stutt Trump, fundaði með forsetanum í gær en hann hefur gagnrýnt ákvörðun Trump að kalla um tvö þúsund hermenn frá Sýrlandi. Það ákvað Trump fyrr í mánuðinum og hélt hann því fram að búið væri að sigra Íslamska ríkið, sem er rangt.



Sýrlenskir Kúrdar, bandamenn Bandaríkjanna gegn ISIS, segja ákvörðun Trump vera svik en þeir óttast árás Tyrkja og vígamanna sem studdir eru af Tyrklandi og þeir óttast upprisu ISIS sömuleiðis. Áætlað er að samtökin búi enn yfir allt að þrjátíu þúsund vígamönnum í Sýrlandi og Írak.

Varnarmálaráðherra Trump og fulltrúi hans í baráttunni gegn ISIS hafa hætt störfum sínum vegna ákvörðunarinnar.

Eftir fund Graham og Trump í gær sagði þingmaðurinn að Trump væri meðvitaður um hættuna sem steðjar. Hann tísti í nótt og sagði að Trump hefði lýst því yfir að þremur skilyrðum yrði að ná áður en Bandaríkin færu frá Sýrlandi.

Fyrst þyrfti að tryggja að ISIS-liðar yrðu algerlega sigraðir og komið í veg fyrir upprisu samtakanna. Þá þyrfti einnig að tryggja að Íran myndi ekki fylla upp í það tómarúm sem brotthvarf Bandaríkjanna myndi skapa og tryggja þyrfti öryggi Kúrda í Sýrlandi.

Graham sagði Trump vera að ræða við hershöfðingja sína og bandamenn til að ganga úr skugga um að þessum markmiðum verði náð. Vert er að benda á það að þetta eru sömu skilyrði og voru til staðar áður en Trump ákvað að kalla hermennina heim.

Þar að auki þarf að taka fram að Trump sjálfur hefur ekki staðfest þessi ummæli Graham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×