Fleiri en tuttugu þúsund manns smituðust af mislingum og 35 létust af völdum þeirra í Evrópu í fyrra samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Tilfellunum fjölgaði fjórfalt á milli ára en sérfræðingar segja að fólk sem hafnar bólusetningum sé hluti orsakarinnar.
Stórir faraldrar komu upp í fimmtán Evrópulöndum árið 2017. Flest tilfellin voru í Rúmeníu, Ítalíu og Úkraínu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að fjölgunin frá árinu áður sé harmleikur. Árið 2016 greindust 5.273 tilfelli og höfðu þau aldrei verið færri.
Meginástæðan fyrir fjölgun tilfella í fyrra er lágt hlutfall bólusettra. Stofnunin segir að hlutfall bólusettra hafi dregist saman almennt auk þess sem ákveðnir jaðarhópar í samfélaginu séu stöðugt illa varðir.
„Hver einasta manneskja sem greinist með mislinga í Evrópu minnir okkur á að óbólusett börn og fullorðnir, hvar sem þeir búa, eru áfram í hættu á að fá sjúkdóminn og að dreifa honum til fleira fólks sem getur kannski ekki verið bólusett,“ segir Zsuzanna Jakab frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni.
Í Rúmeníu þar sem ástandið var verst í fyrra var ástæðan skortur á bóluefni og léleg heilsugæsla. Þá er rómafólka talið í sérstakri hættu á að smitast af sjúkdóminum og dreifa honum en það er fjölmennt í landinu.
Þá hefur ekki hjálpað að hópar fólks hafa haldið uppi fölskum áróðri gegn bólusetningum. Sá áróður byggir meðal annars á löngu hröktum fullyrðingum bresks læknis um að tengsl væru á milli MMR-bóluefnisins, sem veitir vernd gegn mislingum, og einhverfu.
