Innlent

Grindvíkingar voru án rafmagns í fimm tíma

Birgir Olgeirsson skrifar
Ástæða bilunarinnar var bilaður eldingavari á Fitjalínu 1 sem liggur á milli Fitja og Rauðamels.
Ástæða bilunarinnar var bilaður eldingavari á Fitjalínu 1 sem liggur á milli Fitja og Rauðamels. Vísir/Valli

Um klukkan þrjú í nótt varð truflun í flutningskerfinu á Reykjanesi sem varð þess valdandi að rafmagnslaust varð í Grindavík í nokkra klukkutíma, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsneti.

Ástæða bilunarinnar var bilaður eldingavari á Fitjalínu 1 sem liggur á milli Fitja og Rauðamels. Viðgerð í Fitjum hófst strax í nótt og var henni lokið rétt fyrir klukkan átta í morgun og voru Grindvíkingar því án rafmagns í fimm klukkutíma.

Undanfarin ár hefur Landsnet verið að vinna að lagningu Suðurnesjalínu 2,  í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum. Í tilkynningu frá Landsneti kemur fram að eins og staðan er í dag er einungis um að ræða eina línu frá Hafnarfirði til Suðurnesja og því ekki hægt að tryggja afhendingaröryggi á svæðinu þegar um truflun eða bilun eins og í nótt er um að ræða.

Drög að matsáætlun vegna Suðurnesjalínu 2 eru búin að vera í kynningu og athugasemdafresti er nú nýlokið. Er nú er verið að vinna úr ábendingum sem bárust. Vinna að undirbúningi Suðurnesjalínu 2 er unnin í samráði og samvinnu við samfélagið. Hefur Landsnet því sett af stað verkefnaráð, samráðsvettvang þar sem helstu hagsmunaaðilar koma saman með reglulegu millibili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×