Innlent

Rannsaka þjófnað á 600 tölvum

Birgir Olgeirsson skrifar
Tveir eru í haldi vegna málsins
Tveir eru í haldi vegna málsins vísir/gva
Tveir íslenskir karlmenn sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna umfangsmikillar rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á þremur innbrotum í gagnaver í Reykjanesbæ og Borgarbyggð þar sem samtals 600 tölvum var stolið. Innbrotin áttu sér stað á tímabilinu frá 5. desember 2017 til 16. janúar 2018.

Verðmæti þýfisins eru talin nema rúmum 200 milljónum króna.

Lögreglan á Suðurnesjum hefur rannsakað málið í samvinnu við lögregluembættin á Vesturlandi, Norðurlandi eystra og á höfuðborgarsvæðinu og er rannsóknin í fullum gangi.

Í desember síðastliðnum sagði Vísir frá því að tölvubúnaði, sem metinn er á um 20 milljónir króna, hefði verið stolið úr húsnæði að Heiðartröð í Ásbrú í Reykjanesbæ.

Um var að ræða 600 skjákort, 100 aflgjafa, 100 móðurborð, 100 minniskubba og 100 örgjörva og að sögn lögreglu er um nýjan búnað að ræða. Sá eða þeir sem þarna voru að verki höfðu komist inn í gegnum lítið gat á norðurgafli hússins en fyrir það hafði verið fest spónaplata.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×