Innlent

Metaukning í sölu öryggiskerfa fyrir heimili

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Metaukning hefur verið í sölu á öryggiskerfum fyrir heimili á fyrstu mánuðum þessa árs. Talsmenn öryggisfyrirtækja segja að aukninguna megi einkum rekja til innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu, vitundarvakningar og nýrrar tækni í öryggisbúnaði.

Talsvert hefur verið um innbrot á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu en það hafa fyrirtæki sem selja öryggiskerfi orðið vör við í sinni starfsemi.

Auður Lilja Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Öryggismiðstöðinni, segir fyrirtækið vart hafa undan við að setja upp öryggiskerfi á heimilum, svo mikil sé eftirspurnin.

„Eftirspurnin er að aukast og við höfum sett upp mun fleiri kerfi áheldur en að við höfum gert á sama tíma [í fyrra] það sem af er þessu ári. Þetta eru held ég 150 innbrot sem er búið að tilkynna hér á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári og ég held að þetta sé metfjöldi síðustu fimm árin,“ segir Auður Lilja.

Hún segir innbrotahrinuna þó líklega ekki vera einu skýringuna þótt eflaust vegi hún þungt. „Ef það er brotist inn þá auðvitað er það að snerta marga, það er að snerta fjölskyldumeðlimi, það er að snerta nágrannana, það eru vinnufélagarnir og svo framvegis. Og fólk er meira að huga að því að fá sér kerfi áður en það er brotist inn.“

Þá hafi ný tækni í öryggisbúnaði einnig notið aukinna vinsælda. Hjörtur Freyr Vigfússon, markaðsstjóri Securitas, tekur í svipaðan streng en hann segir eftirspurn eftir þjónustunni hafi aukist verulega frá því í fyrra.

„Ég held að það sé óhætt að segja að þetta sé svona næstum því tvöföldun, á símtölum og svo heimsóknum okkar þar sem við erum að skoða heimili og aðstoða fólk, þetta er sirka tvöföldun miðað við sama tíma í fyrra,“ segir Hjörtur Freyr. Ýmsir þættir kunni að skýra þessa aukningu en eitt standi þó upp úr að sögn Hjartar. „Ég held að það sé nú fyrst og fremst þessi innbrotafaraldur og umræða um innbrot sem er að valda þessum aukna áhuga.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×