Sport

Lyfjaeftirlitið fær sjálfstæði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá fundinum í dag. Frá vinstri eru Óskar Þór Ármannsson, Lilja Alfreðsdóttir, Lárus L. Blöndal og Líney Rut Halldórsdóttir.
Frá fundinum í dag. Frá vinstri eru Óskar Þór Ármannsson, Lilja Alfreðsdóttir, Lárus L. Blöndal og Líney Rut Halldórsdóttir. Vísir/E. Stefán
Lyfjaeftirlit íþróttamanna á Íslandi verður framvegis framkvæmt af nýrri sjálfseignarstofnun, Lyfjaeftirliti Íslands, sem var formlega stofnuð í dag.

Þetta þýðir að lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ verður ekki lengur starfrækt og lyfjaeftirlitið sjálft fært undan hatti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Lyfjaeftirlitinu verður stýrt af sjálfstæðri stofnun, eins og tíðkast víða um heim.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, skrifaði undir skipulaggskrá Lyfjaeftirlits Íslands á blaðamannafundi í húsakynnum ÍSÍ í dag ásamt Lárusi L. Blöndal, forseta ÍSÍ.

„Þetta er mjög mikilvægur dagur í íslenskum íþróttum,“ sagði Lilja á fundinum í dag. „Þetta hefur átt sér mjög langan aðdraganda. Það er mikilvægt að við sinnum þessum málefnum við og sinnum þeim skyldum sem alþjóðastofnanir mælast til um.“

Ný stofnun mun hafa sama hlutverk og forveri hennar, að skipuleggja og framkvæma lyfjaeftirlit á Íslandi sem og að birta og kynna bannlista um efni sem óheimilt er að nota í íþróttum. Hún mun einnig standa að fræðslu og forvörnum og taka þát í alþjóðlegu samstarfi.

Menntamálaráðuneyti hefur borið ábyrgð á lyfjaeftirliti á Íslandi frá 1989 og frá 2005 hefur lyfjaeftirlit á Íslandi verið undir sameiginlegri ábyrgð ÍSÍ og ríkisvalds. Árið 2012 mælti lyfjaeftirlit Evrópuráðsins með því að sjálfstæð stofnun myndi annars lyfjaeftirlit, sem verður raunin á Íslandi frá og með deginum í dag.

Fram kom á fundinum í dag að væntanleg stjórn Lyfjaeftirlits ÍSlands mun skipuleggja starfsemina á næstu misserum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×