Erlent

Merkel og Schulz hefja stjórnar­myndunar­við­ræður

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Martin Schulz, leiðtogi Jafnaðarmanna.
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Martin Schulz, leiðtogi Jafnaðarmanna. Vísir/afp
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Martin Schulz, leiðtogi Jafnaðarmanna, hittast í Berlín í dag til að hefja viðræður um mögulegt framhald á stjórnarsamstarfi Kristlegra demókrata og Jafnaðarmanna. Með þeim verður einnig Horst Seehofer, formaður Kristilegra demókrata í Bæjaralandi (CSU).

Skoðanakannanir benda til að Þjóðverjar séu lítið spenntir fyrir áframhaldandi stjórn flokkanna, en viðræður Kristilegra demókrata (CDU og CSU), Frjálslynda flokksins og Græningja runnu úr í sandinn í nóvember.

Kristilegir demókratar og Jafnaðarmannaflokkurinn biðu afhroð í kosningunum í september síðastliðinn og var mikið þrýst á flokkana að ræða saman um stjórnarmyndun þar sem fáir aðrir raunhæfir stjórnarmöguleikar voru í stöðunni.

Könnun Deutschlandtrend bendir til að meirihluti Þjóðverja efist um ágæti stjórnarmynstursins. Einungis 45 prósent aðspurðra segjast jákvæðir eða mjög jákvæðir í garð áframhaldandi stjórnarsamstarfs. 52 prósent eru neikvæð.

Ýmis deilumál

Talið er að einn helsti ásteytingarsteinninn í viðræðunum snúi að sameiningu fjölskyldna stríðsflóttamanna, þar sem Jafnaðarmenn vilja rýmka reglurnar, en Kristilegir demókratar vilja hindra að flóttamenn geti sótt fjölskyldumeðlimi frá heimalandi sínu. Þá verður væntanlega einnig deilt um nálgun nýrrar stjórnar í velferðar-, skatta- og Evrópumálum.

Kristilegir demókratar og Jafnaðarmannaflokkurinn í Þýskalandi hafa starfað saman í ríkisstjórn á árinum 1966 til 1969, 2005 til 2009 og 2013 til 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×