Fótbolti

Litli töframaðurinn frá Kanaríeyjum

Benedikt Bóas skrifar
Það eru erfiðar tímar hjá Silva og fjölskyldu,
Það eru erfiðar tímar hjá Silva og fjölskyldu, Vísir/Getty
Það halda allir með töframanninum hjá Manchester City, David Silva, þessa dagana. Sonur hans fæddist fyrir tímann og berst fyrir lífi sínu. Silva hefur fengið frí frá æfingu og keppni frá félagi sínu en birtist óvænt á keppnisvellinum í vikunni gegn Watford en það var fyrsti leikur hans með liðinu síðan 13. desember.

Þrátt fyrir að hugur hans væri án efa á Spáni þar sem kærasta hans, Yessica Suarez Gonzalez, dvelur ásamt Mateo, syni þeirra, var Silva enn einu sinni frábær og sýndi hvað býr í þessum ótrúlega fótboltamanni.

Eftir leikinn sagði Pep Guardiola, stjóri Manchester City, að hann hreinlega vissi ekki hvað hann fengi að njóta hæfileika Silva lengi. Hann hefði fullan stuðning félagsins til að vera á Spáni eins lengi og þurfa þyki.

Kevin De Bruyne fagnaði markinu sínu með því að búa til númerið hans, 21, og Michael Carrick sendi tíst honum til stuðnings. Carrick er auðvitað leikmaður Manchester United en trúlega sýnir það tíst hversu virtur Silva er.



„Fjölskyldan er það mikilvægasta í lífinu. Það er ljóst hvað David gerir mikið fyrir okkur en ég veit ekki hversu lengi hann mun vera hér hjá okkur. Honum er frjálst að fara heim aftur ef hann þarf að gera það. Það skiptir ekki máli þótt við fáum ekki stig meðan hann er í burtu. Fjölskyldan er mikilvægust,“ sagði Guardiola.

Sjálfur greindi Silva frá veikindum sonar síns á Twitter.

Þrátt fyrir að Silva spili fallega er hann mikill keppnismaður og hann er mikill leiðtogi fyrir þetta lið. Hann er orðinn 31 árs og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan hann kom fyrst til liðsins fyrir sjö og hálfu ári.

Silva er fæddur og uppalinn í þorpinu Arguineguin á eynni Gran Canaria sem er ein Kanaríeyja. Hann þótti strax mjög efnilegur og fór til reynslu til Real Madrid þegar hann var aðeins 14 ára. Madrídingar sáu að þarna fór góður leikmaður og voru ánægðir með það sem þeir sáu. En hann var of lítill fyrir stórliðið á þeim tíma og því hringdi liðið aldrei eftir reynslutímann. Reyndar barst Silva símtal frá Real Madrid áratug síðar þegar liðið vildi kaupa kauða frá Valencia. Áhuginn var mikill og stefndi allt í að Silva myndi klæðast hinni frægu hvítu treyju en José Mourinho kom þá til sögunnar og vildi ekki klára kaupin enda ekki frægur fyrir að kaupa leikmenn sem eru undir 185 sentimetrum. Hann fór því til Manchester City með gullverðlaun frá HM og EM í farteskinu.

Hann var, og er væntanlega enn, mikill aðdáandi Danans Michaels Laudrup sem lék lengi á Spáni. Hann reyndi allt til að endurspegla það sem hann hafði séð í sjónvarpinu með Laudrup úti á leikvelli í Arguineguin.

Þrátt fyrir að Real Madrid hafi ekki viljað kauða á sínum tíma þá vildi Valencia hann og þar gekk hann fótboltamenntaveginn. Eftir að hafa verið lánaður til Eibar og Celta Vigo til að öðlast reynslu fór hann að spila fyrir aðalliðið árið 2006. Ekki leið á löngu þar til nafn hans var orðið eitt það eftirsóttasta í boltanum. Valencia vildi þó ekki selja og fyrst þegar Manchester City spurðist fyrir um hann og samherja hans David Villa vildi félagið fá 135 milljónir punda.

Roberto Mancini vildi fá hann til Inter á sínum tíma og sagði á blaðamannafundi þegar Silva var kynntur til leiks, eftir HM í Suður-Afríku, að hann hefði verið oft í sambandi við Silva. Þeir hefðu talað saman á ítölsku. Silva sagði á bjagaðri ensku að hann hefði hrifist af metnaði City-liðsins og hann hefði áhuga á því að heimsækja þá staði sem félagið langaði að komast á.

Síðan hefur hann látið verkin tala á vellinum og flestir hafa verið sammála um að David Silva sé ein allra bestu kaup félagsins frá því að það byrjaði að ausa úr botnlausum peningahirslum sínum.

Gæði hans eru meira að segja slík að nú þegar margir eru að tala um að þetta City-lið sé eitt það besta og skemmtilegasta sem enska úrvalsdeildin hafi séð í langan tíma þá kemur nafn Davids Silva yfirleitt fyrst upp þegar minnst er á bestu leikmennina. Hann lætur hlutina gerast.

Nú þarf City hins vegar að reiða sig á aðra leikmenn enda mikilvægari málefni á dagskrá hjá Silva. Hann er mikill fjölskyldumaður og stórfjölskyldan hefur flutt bæði til Valencia og Manchester til að vera nær syni sínum.

Hann sem gerir svo margt fyrir aðra og styður við bakið á svo mörgum þarf nú að reiða sig á aðra, læknavísindin og bænir enda hefur það komið í ljós að allir halda með David Silva.

David Josué Jiménez Silva

Fæddur: 8. janúar 1986

Hæð: 173 cm

Lið: Manchester City

Landsleikir 118

Titlar:

Valencia

Bikarmeistari 2007–08


Manchester City

Bikarmeistari 2010–11

Englandsmeistari 2011–12

Samfélagsskjöldurinn 2012

Englandsmeistari 2013–14

Deildabikarmeistari 2013–14

Deildabikarmeistari 2015–16

Spánn

Evrópumeistari með U-19 2004

Evrópumeistari 2008

Heimsmeistari 2010

Evrópumeistari 2012


Tengdar fréttir

Guardiola: Blindur maður sér hversu góður Silva er

David Silva skoraði tvívegis þegar Manchester City vann 0-4 útisigur á Swansea City í ensku úrvalsdeildinni í gær. Þetta var fimmtándi sigur City í röð sem er met í efstu deild á Englandi.

Sonur Silva berst fyrir lífi sínu

David Silva, leikmaður Man. City, greindi frá því í dag að ástæðan fyrir fjarveru hans síðustu misseri væri tengd því að sonur hans væri að berjast fyrir lífi sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×