Erlent

Neyddist til að segja af sér vegna vatnssölufársins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Úr myndbandinu sem deilt var á samfélagsmiðlum. Viðbrögð Ettel, sem hefur verið uppnefnd Permit-Patty (ísl. Leyfis-Lovísa), hafa vakið hörð viðbrögð netverja.
Úr myndbandinu sem deilt var á samfélagsmiðlum. Viðbrögð Ettel, sem hefur verið uppnefnd Permit-Patty (ísl. Leyfis-Lovísa), hafa vakið hörð viðbrögð netverja. Skjáskot/Twitter
Alison Ettel, bandarísk kona sem sem virtist tilkynna vatnssölu átta ára gamallar svartrar stúlku til lögreglu, hefur látið af störfum hjá fyrirtæki sem hún stofnaði, að því er fram kemur í frétt breska dagblaðsins The Guardian.

Mikil reiði braust út meðal notenda á samfélagsmiðlum eftir að myndbandi af atvikinu, sem móðir téðrar stúlku tók upp, var deilt á netinu. Í myndbandinu sést Ettel tala í símann, að því er virðist við lögreglu, á grundvelli þess að stúlkan hafi staðið að ólöglegri vatnssölu án tilskilins leyfis frá yfirvöldum í Kaliforníu.

Þar eð umrædd stúlka er svört og Ettel hvít hefur atvikið verið sett í samhengi við fordóma og kynþáttaspennu í Bandaríkjunum. 

Myndbandið fór eins og eldur í sinu um netheima og fljótlega hófu verslanir, sem seldu vörur frá fyrirtæki Ettel, TreatWell Health, að rjúfa öll tengsl við bæði fyrirtækið og Ettel. Í gær var svo tilkynnt um að Ettel hefði sagt sig frá öllum störfum fyrir fyrirtækið og tók afsögn hennar þegar gildi. TreatWell Health framleiðir kannabisvörur fyrir bæði menn og dýr.

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að með ákvörðun sinni standi Ettel vörð um hagsmuni fyrirtækisins. Hún lýsti einnig yfir eftirsjá og iðrun vegna atviksins. Ekki fengust upplýsingar um það hvort Ettel verði enn hluti af eigendahóp TreatWell Health.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×