Enski boltinn

Sven-Göran gerði Aroni Einari og félögum greiða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neil Etheridge er búinn að standa sig vel í marki Cardiff á leiktíðinni.
Neil Etheridge er búinn að standa sig vel í marki Cardiff á leiktíðinni. Getty/Michael Steele
Cardiff City missir ekki aðalmarkvörðinn sinn Neil Etheridge í janúar eins og stefndi í. Ástæðan er greiði frá Sven-Göran Eriksson, fyrrum þjálfara enska landsliðsins.

Svíinn Sven-Göran Eriksson er nú tekinn við sem landsliðsþjálfari Filippseyja og framundan er Asíubikarinn í næsta mánuði. Sven-Göran gerði sex mánaða samning í lok október

Neil Etheridge er ein stærsta alþjóðlega fótboltastjarna Filippseyja og það bjuggust allir við því að hann yrði í hópnum hjá þeim sænska. Sven-Göran valdi hinsvegar Etheridge ekki í hópinn.





„Ég ræddi við Sven. Ég hefði verið ánægður með hvaða ákvörðun sem er en hann var mjög hjálplegur,“ sagði Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff City.

„Hann sagði: Neil veit hversu mikilvægt það er fyrir þig og klúbbinn og ég ber virðingu fyrir því. Ég varð eiginlega orðlaus. Vel gert,“ sagði Warnock.

„Neil vildi vera hér og hjálpa okkur. Hann vildi heldur ekki missa sætið sitt í liðinu. Frá okkar bæjardyrum séð þá er gott að þurfa ekki að breyta of miklu á þessu stigi,“ sagði Warnock.





Neil Etheridge er 28 ára og á sínu öðru tímabili með Cardiff. Þetta eru fyrstu leikir hans í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur spilað í ensku neðri deilunum frá 2012-13 tímabilinu.

Neil Etheridge á að baki 62 landsleiki fyrir Filippseyjar em þeir þrír markverðir sem voru valdir í hópinn fyrir Asíubikarinn hafa aðeins spilað samanlagt 6 landsleiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×