Enski boltinn

Vildi ekki Mohamed Salah

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hefði getað endað hjá PSG en Liverpool getur þakkað áhugaleysi Unai Emery að svo varð ekki.
Mohamed Salah hefði getað endað hjá PSG en Liverpool getur þakkað áhugaleysi Unai Emery að svo varð ekki. Getty/John Powell
Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, átti kannski smá þátt í því að Mohamed Salah endaði hjá Liverpool sumarið 2017. Stjóri Arsenal fær nú það verkefni að reyna að stoppa Egyptann á morgun.

Unai Emery sagði frá því á blaðamannafundi fyrir leik Liverpool og Arsenal í ensku úrvalsdeildinni á morgun að Emery hafi fengið tækifæri til að kaupa Mohamed Salah þegar hann var stjóri Paris Saint Germain.

„Við ræddum möguleikann á því að Paris Saint-Germain myndi kaupa Salah þegar hann var að spila hjá Roma,“ sagði Unai Emery.

„Við höfum einhverjar efasemdir og svo fór hann til Liverpool í júní 2017. Hann hefur eytt öllum þessum efasemdum. Nú erum við að tala um einn af fimm bestu fótboltmönnum í heimi,“ sagði Unai Emery.





Unai Emery þurfti að velja og hafna þegar kom að því að styrkja sóknarleik Parísarliðsins þetta sumar 2017. Hann fékk líka enga meðaljóna í stað Salah.

PSG keypti nefnilega Neymar frá Barcelona fyrir 222 milljónir evra í byrjun ágúst og fékk síðan Kylian Mbappé á láni frá Mónakó í lok ágúst.

Liverpool tók Mohamed Salah opnum örmum og sá hefur slegið í gegn.

Mohamed Salah skoraði 44 mörk í 52 leikjum í öllum keppnum á sínu fyrsta tímabili og lagði upp 16 mörk til viðbótar. Á sínu öðru tímabili hefur hann skorað 15 mörk og lagt upp sjö til viðbótar í 26 leikjum.

Mohamed Salah er þegar búinn að skora 12 mörk og gefa 7 stoðsendingar í 19 leikjum í ensku úrvalsdeildinni þar af er hann með 9 mörk og 5 stoðsendingar í síðusutu 11 leikjum. Liverpool hefur náði í 31 stig af 33 mögulegum í þeim.

Leikur Liverpool og Arsenal fer fram á Anfield á morgun, laugardaginn 29. desember, en hann hefst klukkan 17.30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×