Lögreglan á Suðurlandi vonast til þess að hægt verði að ræða við bresku mennina tvo sem fluttir voru alvarlega slasaðir á Landspítalann eftir umferðarslys við Núpsvötn í gær. Vonir eru bundnar við að samtöl við mennina, sem og rannsókn á bílnum, varpi ljósi á tildrög slyssins.
Eiginkonur mannanna, sem eru bræður, og eitt barn létust í slysinu. Þá voru tvö börn á aldrinum sjö til níu ára einnig flutt alvarlega slösuð á slysadeild Landspítalans.
Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að rannsókn á slysinu haldi áfram í dag. Þá mun Rannsóknarnefnd samgönguslysa mæta á vettvang ásamt lögreglu.
„Við byrjum á því að skoða bílinn og vonumst til að taka skýrslur af þeim sem lifðu af. Það er það sem við vonumst eftir að gera í dag.“
Sjálfur hafði Sveinn ekki fengið fregnir af líðan þeirra sem flutt voru á slysadeild í morgun. RÚV hefur þó eftir Landspítala að mennirnir og börnin tvö hafi verið útskrifuð af bráðadeild og yfir á aðrar deildir spítalans.
Aðspurður hvort allir sem voru í bílnum hafi verið í bílbelti segir Sveinn að það verði eitt af því sem rannsakað verði í dag, m.a. með skoðun á bílnum sem fluttur var á Selfoss eftir slysið í gær. Bræðurnir tveir, breskir ríkisborgarar af indverskum ættum, voru á ferðalagi hér á landi ásamt fjölskyldum sínum.

