Menning

Jón lærði – Misskilinn maður um aldir

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
„Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem menn eru að gera sér grein fyrir því hversu mikið var í hann spunnið,“ segir Ólína um alþýðufræðimanninn Jón lærða.
„Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem menn eru að gera sér grein fyrir því hversu mikið var í hann spunnið,“ segir Ólína um alþýðufræðimanninn Jón lærða. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Reykholtshátíð hefst á morgun, föstudaginn 27. júlí með veglegri tónlistardagdagskrá, hátíðarguðsþjónustu og fyrirlestri sem haldinn verður á laugardag í Snorrastofu klukkan 13.

Fyrirlesari hátíðarinnar að þessu sinni er dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur. Titill erindis hennar er: „Fyrsti blaðamaðurinn – fyrstur til margs. Um náttúrur Jóns lærða.“

Útlagi í eigin landi

„Jón lærði hefur verið misskilinn maður um aldir,“ segir Ólína. „Einna frægastur er hann fyrir skrif sín um Spánverjavígin 1615 sem voru hrikalegt fjöldamorð – það eina sem sögur fara af á Íslandi – framið af Ara sýslumanni í Ögri og mönnum hans á vopnlausum baskneskum skipbrotsmönnum.

Ari, sem var héraðsríkur höfðingi á þeim tíma, sýslumaður og umboðsmaður konungsjarða, var öflugur valdsmaður og aðrir embættismenn á svæðinu mæltu verkinu bót. Jón lærði, sem að því er virðist hafði verið vinur Ara í Ögri, fann ekki hjá sér neina meðvirkni í þessu máli. Þarna voru á þriðja tug baskneskra skipreika hvalveiðimanna drepnir í griðum. Jón skrifaði „Sanna frásögu af spanskra manna skipbrotum og slagi“ um þessa atburði þar sem hann afhjúpar verknaðinn sem ódæðisverk. Þar með ýfði hann fjaðrirnar á Ara í Ögri og komst í ónáð hjá embættisveldinu kringum hann. Upp frá því varð líf hans ein samfelld hrakfallasaga.

Jón lærði var mjög gáfaður maður. Hann var sjálfmenntaður alþýðufræðimaður, náttúrufræðingur og grúskari en líka skáld og listamaður og kirkjuskreytingar hafa varðveist eftir hann. Alþýða landsins hafði engar forsendur til að skilja hvorki fræði hans né viðfangsefni. Ísland var illa upplýst samfélag á sautjándu öld, samfélag dómhörku, fátæktar og einangrunar, þannig að vörumerkið sem Jón fékk á sig var merki kraftaskáldsins og draugabanans. Hann fékkst við lækningar og átti lækningabækur, en á hans tíð var ekki alltaf augljós munur lækningabóka og galdrabóka. Þegar Jón var kominn í ónáð hjá yfirvöldum fór allt þetta að vinna gegn honum og um síðir fékk hann á sig galdraákæru. Á 17. öldinni var fólk brennt á báli fyrir minnsta grun um galdur, ekki þurfti annað en að blað fyndist í fórum fólks til að það yrði sakfellt. Má þess vegna kallast hálfgert kraftaverk að Jón skyldi sleppa við galdrabálið. Hann átti öfluga vini, þar á meðal Brynjólf Sveinsson biskup í Skálholti, sem vildu honum vel. Sennilega hafa þeir menn haldið hlífiskildi yfir honum og reynt að hjálpa honum á bak við tjöldin.

Læknakver Jóns lærða.
„Síðan líða aldir og Jón lærði er alltaf meðhöndlaður eins og hálfgerður furðufugl og sérvitringur og talaður nokkuð niður. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem menn taka að gera sér grein fyrir því hversu mikið var í hann spunnið. Ef við speglum hans tilveru við samtímann þá sjáum við að hann er á pari við ýmsa merka menn og ef við horfum til blaðamennskunnar þá á hann ýmislegt sameiginlegt með Snowden og Assange því hann er uppljóstrari og geldur fyrir það með lífi sínu, þótt hann hafi lifað af. Hann varð útlagi í eigin landi.“

Frekari kynni af Jóni

Spurð hvenær áhugi hennar á Jóni lærða hafi vaknað segir Ólína: „Þegar ég var að skrifa doktorsritgerð mína um brennuöldina þá rak Jón lærða fljótlega á fjörur mínar. Ég fór í gegnum öll galdramál á Íslandi sem voru háð fyrir dómstólum og það eru til skjöl um hans mál. Núna er ég að skoða fornar lækningar, gömul lækningahandrit, sögu lækninganna og þróun þeirra frá upphafi til dagsins í dag. Þar kemur Jón lærði líka við sögu því hann var dæmdur árið 1631 fyrir lækningakver sitt sem hann kallaði „Bót eður viðsjá við illu ákasti“. Það er glatað en lýsing á því er til í dómskjölum og sé sú lýsing borin saman við aðrar lækningabækur má sjá að þetta hefur verið nokkuð dæmigert lækningakver. Á þeim tíma var hins vegar lítill munur gerður á þeim og galdrakverunum því mikil hjátrú var komin inn í lækningabækurnar, eins og rúnir og annað sem er lækningum óviðkomandi.

Svo var ég svo heppin að fá að skrifa ritdóm um bók sem kom út fyrir nokkrum árum og hét Í spor Jóns lærða þar sem fræðimenn fjölluðu um hann frá ýmsum sjónar­hornum og þá vitjaði hann mín aftur,“ segir Ólína.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Ólína fer sjálf á Reykholtshátíð enda hefur hún verið búsett á Ísafirði mörg undanfarin ár og ekki beint átt leið um Borgarfjörðinn um þetta leyti eins og hún segir. „Mér finnst þetta merk lista- og menningarhátíð þar sem listin og fræðin vefast saman og skemmtileg er sú hefð að hafa fræðafyrirlestur í tengslum við tónlistarhátíð. Mér er sannur heiður að því að halda fyrirlestur hátíðarinnar að þessu sinni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×