Innlent

Laun ríkis­starfs­manna greidd út á morgun og tafir á öðrum launa­greiðslum á bar­áttu­degi verka­lýðsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá 1. maí á síðasta ári.
Frá 1. maí á síðasta ári. vísir/stefán
Launagreiðslur til ríkisstarfsmanna verða ekki greidd út fyrr en á morgun að sögn Ingþórs Karls Eiríkssonar, fjársýslustjóra, þar sem launagreiðslur þeirra miða við fyrsta virka dag hvers mánaðar.

Í dag er 1. maí, baráttudagur verkalýðsins, sem er ekki virkur dagur og fá ríkisstarfsmenn því ekki útborgað í dag, en nokkrar ábendingar frá ríkisstarfsmönnum bárust fréttastofu í morgun vegna þessa.

„Við erum búin að afgreiða launin eins og okkur ber skylda til en þau eiga að greiðast fyrsta virka dag hvers mánaðar. Nú er frídagur í dag þannig að þau greiðast á morgun. Birtingarformið hefur þó verið með öðrum hætti hjá bönkunum þannig að þau hafa birst áður en þau hafa verið greidd,“ segir Ingþór í samtali við Vísi.

Hann leggur áherslu á að Fjársýsla ríkisins uppfylli þau lög og skyldur sem henni ber og samkvæmt því skal greiða ríkisstarfsmönnum laun fyrsta virka dag hvers mánaðar.

„Ég veit ekki annað en að allt hafi verið með réttum hætti þannig að í fyrramálið þá verða launin komin.“

Hann segir þetta alltaf hafa verið svona en það sem kann að rugla fólk er að launin birtist í heimabankanum líkt og búið sé að greiða þau út.

Þá kemur fram á RÚV að launagreiðslur hjá fjölmörgum hafi dregist á langinn í morgun þar sem upp kom vélarbilun hjá Reiknistofu bankanna. Að því er fram kemur á vef RÚV er venjulega búið að klára alla launavinnslu milli klukkan sex og níu á morgnana.

Í morgun kláruðust þær hins vegar ekki fyrr en um klukkan hálfellefu. Ættu því allir að vera búnir að fá greidd út laun nema ríkisstarfsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×