Innlent

„Það vill enginn vera eins og Stein­grímur J.“

Árni Sæberg skrifar
Arnar Sigurðsson er eigandi Sante.
Arnar Sigurðsson er eigandi Sante. Vísir/Vilhelm

Eigandi netverslunar með áfengi segir ljóst af lestri draga að frumvarpi um innlenda netverslun með áfengi að með þeim sé gengið langt til þess að þóknast „hugarburði þeirra sem aðhyllast ríkisforsjárhyggju“ um vandamál sem séu ekki til staðar.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra birti í gær drög að frumvarpi um breytingu á áfengislögum, sem heimila innlenda netverslun með áfengi. Lagt er til í drögunum að netsalan verði leyfisskyld og hinum ýmsu skilyrðum háð. Til að mynda verði hvorki heimilt að afhenda áfengi á sunnudögum né seint á kvöldin.

Þá segir einnig í drögunum að í frumvarpinu verði mælt fyrir um að óheimilt verði að hafa áfengi til sýnis á afhendingarstað. Mælt verði fyrir um skyldu afhendingaraðila til að láta viðtakanda færa sönnur á aldur sinn. Í ljósi þess að afhending áfengis geti farið fram á mismunandi hátt sé lagt til að gerðar verði strangar kröfur til sönnunar á aldri viðtakanda.

Enginn vildi eins og Steingrímur vera

Arnar Sigurðsson, eigandi áfengisnetverslunarinnar Sante, segir í samtali við Vísi að það sem sé einna helst fréttnæmt við frumvarp dómsmálaráðherra sé að það sé komið fram undir forsætisráðuneyti Bjarna Benediktssonar, sem sé yfirlýstur stuðningsmaður viðskiptafrelsis. 

Það sem hafi hindrað atkvæðagreiðslu um fyrri frumvörp um sama mál, hafi verið andstaða þáverandi forsætisráðherra, sem hafi hindrað þingræðislega meðferð með því að neita því að frumvarpið færi í atkvæðagreiðslu.

Hann kveðst sannfærður um að frumvarpið verði samþykkt komist það í atkvæðagreiðslu, enda séu örfáir á þingi mótfallnir netverslun með áfengi.

„Þetta er eins og með bjórinn, það vill enginn vera eins og Steingrímur J. [Sigfússon], vitlausu megin í sögunni.“

Hið opinbera hafi sýnt að því sé ekki treystandi fyrir því að selja ekki unglingum áfengi

Arnar segir að það eina sem allir eru sammála um þegar kemur að sölu áfengis sé að það sé ekki selt börnum.

„Á því sviði hefur hið opinbera sýnt og sannað að því er ekki treystandi. Að auki hljóta allir að sjá að hið opinbera sinnir aldrei eftirlitshlutverki með sjálfu sér.“

Það þjóni engum tilgangi að flækja eiginlega afhendingu vörunnar með einhverskonar tvöfaldri aldursgreiningingu, sem kalli á flókna útfærslu sem ekki sé til staðar í dag nema þar sem slíkt á við eins og til dæmis háttar til um á afhendingarstöðum Dropp. 

„Engum slíkum lögum um tvöfalt kerfi er til að dreifa þegar kemur að afhendingu á sprengiefni, skotfærum, geislavirkum efnum, byssum eða lyfjum svo dæmi sé tekið.“

Enginn hætti að drekka þótt hann fái ekki áfengi á aðfangadag

Þá segir Arnar að honum þyki takmarkanir á afhendingartíma áfengis í besta falli kjánalegar. Sjálfur afhendi hann ekki áfengi langt fram á kvöld og taki sér frí á helgidögum þjóðkirkjunnar og öðrum helstu frídögum, svo takmarkanirnar hafi lítil áhrif á starfsemi Sante.

„En segjum bara að þú hafir gleymt að sækja pöntunina þína og hringir í mig eftir lokun í öngum þínum og ég segi: Árni, ég er á leiðinni út á Granda núna, ég skal bara hitta þig eftir korter. Er þetta þá lögbrot? Það gengur ekki að vera að búa til svona flækjustig fyrir lögregluna, að vera að fylgjast með einhverjum afhendingartímum.“

Þá spyr hann sig að því hvern varði um það að einhver vilji fá tólf Stellur sendar upp í Árbæ að kvöldi til eða viskíflösku á páskasunnudag.

„Hvaða vandamál er fólk að reyna að leysa? Heldur þú að þeir sem eru í ræsinu hugsi Ég fæ ekki viskíflösku á aðfangadag, ók, ég hætti bara að drekka og fer í meðferð?“

Leifsstöð breytt í áfengisranghala og vín sýnilegt í Kringlunni

Í drögum dómsmálaráðherra er einnig mælt um fyrir banni á sýnileika áfengis á afhendingarstað áfengis sem keypt er í netverslun. Þarna segir Arnar líka reynt að leysa vandamál sem sé ekki til staðar.

„Er verið að segja að sjónreynt áreiti valdi áfengisfíkn. Ef þú værir nú veikur fyrir sopann og þú sérð vínflösku einhvers staðar, fellur þú þá?“

Þá furðar hann sig á ýmsum ákvörðunum hins opinbera, trúi það þessu í raun og veru.

„Af hverju er þá búið að breyta Leifsstöð í svona áfengisranghala, af hverju er búið að flétta saman áfengi með snyrtivörum, sælgæti, leikföngum og öðru. Hversu margir falla þá við að labba þar í gegn? Er búið að rannsaka það? Nei. Auðvitað er það vegna þess að það trúir þessu enginn. Að áfengi seljist eitthvað meira ef það sést í það. Ég meina það sést inn í ÁTVR-búðirnar í Smáralind og Kringlunni. Ef menn tryðu þessu, þá væri það nú varla.“


Tengdar fréttir

Pósturinn dreifir áfengi

Pósturinn hefur frá því í vor dreift áfengi fyrir Smáríkið, netverslun sem selur áfengi. Fólk sem fær áfengi sent heim með póstinum er krafið um rafræna auðkenningu við afhendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×