Erlent

Hefja herferð gegn Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
Endurnýjun kynnti herferð sína til að stöðva Brexit í þinginu í dag.
Endurnýjun kynnti herferð sína til að stöðva Brexit í þinginu í dag. Vísir/AFP
Nýr stjórnmálaflokkur í Bretlandi sem stofnaður var í fyrra hleypti af stokkunum herferð til að koma í veg fyrir að Bretar gangi úr Evrópusambandinu í dag. Fyrirmynd flokksins er sögð stjórnmálaflokkur Emmanuels Macron, forseta Frakklands.

Endurnýjun [e. Renew] var stofnaður í fyrra skömmu eftir að Macron hafði sigur í frönsku forsetakosningunum með nýstofnuðum Áfram-flokki sínum. Liðsmenn Endurnýjunar ætla að reyna að sannfæra breska þingmenn um að hafna samningi stjórnvalda um að ganga úr sambandinu.

Þetta hyggjast þeir gera með því að þrýsta á þingmenn sem eru hlynntir Brexit í kjördæmum þar sem mikill stuðningur er við aðild að ESB, að því er segir í frétt Reuters.

„Við ætlum að þrýsta á þingmenn um að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar og að setja það að vera um kyrrt aftur á dagskrána í atkvæðagreiðslu um endanlegan samning við Evrópusambandið,“ segir James Torrance,  eins forsvarsmanna flokksins.

Flokkurinn ætlar einnig að bjóða fram í sveitarstjórnarkosningum í maí og eins ef til þingkosninga kemur.

Ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra og Íhaldsflokkur hennar er klofinn í afstöðu sinni til Brexit. May hefur sjálf sagt að Bretland gangi úr sambandinu í lok mars á næsta ári hvað sem tautar og raular. Hún hefur útilokað að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um útgönguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×