Erlent

Svíar búnir undir stríð í fyrsta sinn frá kalda stríði

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, ræðir við hermenn á heræfingu
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, ræðir við hermenn á heræfingu
Sænsk stjórnvöld hafa endurútgefið bækling með upplýsingum fyrir almenning um hvernig bregðast skuli við stríðsástandi. Bæklingnum hefur ekki verið dreift síðan í kalda stríðinu en var uppfærður á dögunum vegna þeirrar spennu sem ríkir í heiminum um þessar mundir.

Bæklingurinn er 20 síður og inniheldur ekki aðeins upplýsingar um stríðsviðbúnað heldur einnig hvernig bregðast skuli við hryðjuverkum, efnavopnaárásum og öðrum hörmungum.

Svíar hafa ekki háð stríð síðan þeir sigruðu Norðmenn fyrir rúmum tvö hundrað árum, að undanskildum friðargæsluverkefnum. Núverandi stjórnvöldum er hins vegar mjög umhugað um að styrkja varnir landsins og hafa nýlega ákveðið að koma aftur á herskyldu eftir átta ára hlé. Þá stendur til að auka hernaðarútgjöld um rúma sjötíu og fimm milljarða íslenskra króna á næstu fimm árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×