Erlent

Alfie Evans lést í nótt

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Breski drengurinn Alfie Evans þjáðist af taugahrörnunarsjúkdómi. Hann lést í nótt.
Breski drengurinn Alfie Evans þjáðist af taugahrörnunarsjúkdómi. Hann lést í nótt. vísir/afp
Breski drengurinn Alfie Evans lést í nótt á barnaspítalanum Alder Hey í Liverpool eftir að rúm vika hafði liðið frá því hann var tekinn úr öndunarvél.

Mál Alfies litla fór hátt í fjölmiðlum þegar breskir dómstólar bönnuðu foreldrum hans að ferðast með hann til Ítalíu. Foreldrarnir töldu að læknismeðferð sem er í boði á Ítalíu myndi bæta ástand drengsins en álit lækna var að Alfie ætti enga von um bata og ennfremur að hann myndi ekki lifa af ferðalagið til Ítalíu. Dómstólar tóku undir með læknunum. Guardian greinir frá.

Alfie, sem lést rúmlega tveggja ára að aldri, var með taugahrörnunarsjúkdóm og hafði verið meðvitundarlaus í um ár.

„Baráttumaðurinn minn hefur lagt niður skjöldinn og fengið vængi...“ segir í stöðuppfærslu frá Tom Evens, föður drengsins sem segist vera alveg niðurbrotinn. 

Barátta foreldranna fyrir dómstólum hefur ekki aðeins tekið á litlu fjölskylduna heldur einnig starfsfólkið á barnaspítalanum sem var harðlega gagnrýnt á samfélagsmiðlum. Þegar niðurstaðan dómstóla lá fyrir tóku foreldrarnir starfsfólkið í sátt.

Evans færir starfsfólkinu þakkir sínar og segist jafnframt vita að málið hafi líka reynst því erfitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×