Erlent

Koma upp neyðar­teymum hersins til að bæla niður ó­eirðir

Atli Ísleifsson skrifar
Frá mótmælaaðgerðum í íröksku höfuðborginni Bagdad.
Frá mótmælaaðgerðum í íröksku höfuðborginni Bagdad. AP
Yfirvöld í Írak vinna nú að því að koma upp sérstökum neyðarteymum innan hers landsins sem hafa þann tilgang að bæla niður óeirðirnar í landinu sem hafa leitt til dauða rúmlega 300 manna.

BBC greinir frá því að átta hafi látið lífið í óeirðum í bænum Nasiriya í suðurhluta landsins fyrr í dag, þar sem öryggissveitir skutu að mótmælendum til að dreifa mannfjöldanum.

Mörg hundruð þúsunda Íraka hafa mótmælt á götum úti síðustu vikurnar til að þrýsta á stjórnvöld að vinna gegn spillingu og bæta opinbera þjónustu. Aukinn þungi færðist í mótmælin eftir að mótmælendur létust í átökum við öryggissveitir.

Adel Abdel Mahdi, forsætisráðherra Íraks, segist hafa komið á þessum sérstök viðbragðsteymum undir stjórn háttsettra innan hersins til að „koma á öryggi og reglu á ný“.

Tilkynningin frá Íraksstjórn kemur degi eftir að hópur mótmælenda kveiktu í ræðismannsskrifstofu Írans í borginni Najaf. Saka mótmælendur Írani um óeðlileg afskipti af írökskum innanríkismálum.

Mótmælendur eru óánægðir með forsætisráðherrann Mahdi sem tók við embætti fyrir um ári. Hét hann ýmsum umbótum, sem hafa hefur enn ekki verði hrint í framkvæmd. Hafa sér í lagi ungir Írakar lýst yfir mikilli gremju með hið mikla atvinnuleysi í landinu, víðtæka spillingu og bága opinbera þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×