„Fríhöfnin sagði upp 6 starfsmönnum fyrir síðustu mánuði og því miður er staðan þannig að nauðsynlegt er að fækka starfsfólki enn frekar,“ segir Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu í dag.

„Gjaldþrot WOW og kyrrsetning Max véla hefur töluverð áhrif á sætaframboð til og frá Íslandi og þar af leiðandi á fjölda farþega sem fara um flugstöðina. Önnur flugfélög virðast ekki vera að bæta við ferðum að neinu ráði, amk ekki næstu mánuðina,“ segir í svari Þorgerðar.
Um 200 manns starfa hjá Fríhöfninni en Þorgerður sagði í samtali við Vísi í mars að koma þyrfti í ljós hvort grípa þyrfti til frekari uppsagna. Mörg fyrirtæki, einkum í ferðaþjónustu, sögðu upp starfsfólki eftir að WOW air varð gjaldþrota. Með þeim 900 starfsmönnum WOW sem misstu vinnuna urðu 1500 manns atvinnulausir á fáeinum sólarhringum í kringum gjaldþrotið.