Enski boltinn

„Stuttermabolir og samfélagsmiðlar munu ekki breyta neinu“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Raheem Sterling er búinn að vera frábær á tímabilinu, innan sem utan vallar
Raheem Sterling er búinn að vera frábær á tímabilinu, innan sem utan vallar vísir/getty
Tímabilið í ár býður upp á eina mest spennandi titilbaráttu sem sést hefur í mörg ár í ensku úrvalsdeildinni. Einn af lykilmönnunum í þessari baráttu er Raheem Sterling en hann hefur þó verið meira áberandi í annari baráttu.

Í vetur hefur kynþáttaníð frá stuðningsmönnum verið mjög áberandi og hefur Sterling verið einn af þeim sem hafa tekið af skarið og talað opinskátt um málið og barist fyrir harðari refsingum.

Sterling segist sjálfur ekki vilja vera einhver talsmaður baráttunnar gegn kynþáttanýði en hann vill þó nýta þá stöðu sem hann er í og athyglina sem hann fær til þess að tala fyrir aðgerðum.

„Með fullri virðingu fyrir Kick It Out þá eru herferðir þeirra, með stuttermabolum og öðru, þær sýna okkur hvaða skilaboðum á að koma á framfæri en hvað gera þær í raun og veru? Við þurfum að hjálpa Kick It Out og öðrum ýta aðeins lengra,“ sagði Sterling í viðtali við Sky Sports.

„Úrvalsdeildin stakk upp á þessum mótmælum á samfélagsmiðlum. Aftur, þá hugsaði ég „allt í lagi, fólk sér þetta á samfélagsmiðlum en hvað gerir þetta? Hvaða árangri skilar þetta?“.“

„Við, leikmennirnir sem höfum lent í þessu, viljum sjá eitthvað gerast. Stuttermabolir og samfélagsmiðlar eru ekki að fara að breyta neinu.“

Sterling hefur talað opinskátt um kynþáttaníð í vetur en hann segist sýna þeim skilning sem eiga erfiðara með að opna sig um málið.

„Enginn segir neitt og þeir halda tilfinningum sínum fyrir sig og fyrir mér er það rangt. En á sama tíma þá vill enginn að það komi í bakið á þeim. Þegar ég tók af skarið og sagði eitthvað þá var það bara til þess að fá fólk til þess að skilja hvernig þetta er.“

„Við erum með tækifæri núna til þess að gera eitthvað og breyta þessu þannig að eftir tíu ár þá viti leikmenn að þegar þeir eru á fótboltavellinum þá geti þetta ekki gerst.“

„Við þurfum að gera eitthvað sem lætur fólk hugsa sig oftar en tvisvar um.“


Tengdar fréttir

Þrír frá City tilnefndir

Tilnefningarnar fyrir besta leikmann og besta unga leikmann ensku úrvalsdeildarinnar hafa verið opinberaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×