Fótbolti

Starfsfólk PSG þurfti að halda Neymar frá því að ráðast inn til dómaranna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Damir Skomina benti á punktinn eftir að skoða VAR.
Damir Skomina benti á punktinn eftir að skoða VAR. vísir/getty
Paris Saint-Germain tapaði fyrir Manchester United á miðvikudagskvöldið í seinni leik liðanna í 16 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta, 3-1, eftir að vinna fyrri leikinn sannfærandi, 2-0, á heimavelli.

Sigurinn var dramatískur í meira lagi en Damir Skomina, slóvenskur dómari leiksins, dæmdi VAR-víti í uppbótartíma sem að Marcus Rashford skoraði úr en það mark skaut United í átta liða úrslitin á kostnað PSG.

Brasilíumaðurinn Neymar gat ekki tekið þátt í leiknum vegna meiðsla en hann stóð bálreiður á hliðarlínunni síðustu mínúturnar og var ekki skemmt þegar að Skomina benti á vítapunktinn.

Franskir fjölmiðlar greina frá því að Neymar hafi gjörsamlega bilast í leikslok og reynt að komast að dómurunum en hann gat ekki sætt sig við úrslitin og að hans mati óréttlætið í dómgæslunni.

Franska útvarpsstöðin RMC segir frá því að inn í leikmannagöngunum eftir leik hafi starfsfólk PSG hreinlega þurft að halda Neymar aftur svo hann myndi ekki æða inn í búningsherbergi dómaranna á Prinsavöllum í París.

Í sömu frétt segir að Nasser al-Khelaifi, forseti PSG, hafi ekki verið neitt mikið glaðari og tekið reiði sína út á hurð einni í göngunum.

Neymar lét dómarana heyra það á Instagram eftir leik og sagði þeim að fara til fjandans en Brasilíumaðurinn gæti átt yfir höfði sér nokkurra leikja Evrópuleikjabann fyrir framkomu sína.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×