Í úrskurði Neytendastofu í máli eCommerce 2020 er fyrirtækinu gert skylt að breyta stöðluðu eyðiblaði og lánssamningi. Fyrirtækið er staðsett í Danmörku en býður upp á lán hér á landi í gegnum smálánafyrirtækin 1909, Hraðpeninga, Krefia, Múla og Smálán.
Neytendalán fyrirtækisins voru tekin til skoðunar í því skyni að athuga hvort kostnaður lána frá félaginu bryti gegn hámarki á árlegri hlutfallstölu kostnaðar og hvort þær upplýsingar sem fram komu í stöðluðu eyðublaði og lánssamningi væru í samræmi við það sem kveðið er á um í lögum.
Sjá einnig: Ráðleggur neytendum að forðast eCommerce
Álitamál var hvort íslensk eða dönsk lög ættu við í málinu og hvaða skilyrði samningarnir þyrftu að uppfylla. Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að fyrirtækinu væri skylt að fara eftir íslenskum lögum um lagaskil á sviði samningaréttar sem fjalla um neytendasamninga þar sem þau ættu við í tilviki eCommerce.
Fyrirtækið er í eigu Kredia Group og hafði áður lækkað vexti sína í sumar. Eftir lækkun urðu vextirnir þær hæstu leyfilegu samkvæmt íslenskum lögum.
Í niðurstöðunni segir að fyrirtækið hafi brotið 26. gr. laga um neytendalán með innheimtu kostnaðar af neytendalánum sem nam hærri árlegri hlutfallstölu kostnaðar en 50% að viðbættum stýrivöxtum. Þá braut fyrirtækið einnig gegn ákvæðum sömu laga með ófullnægjandi upplýsingagjöf í eyðublaði sem fylgdi lánum og í lánssamningnum sjálfum.
