Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir reynir nú að tryggja sér þátttökurétt á LPGA-mótaröðinni og hún komst auðveldlega í gegnum fyrsta stigið í nótt.
Valdís Þóra lék á 72 höggum í Kaliforníu í nótt. Hún endaði jöfn í 21. sæti og komst þar með inn á annað stig úrtökumótanna.
Valdís Þóra var sex höggum frá því að missa af farmiða á annað úrtökumótið og því var ekkert stress hjá henni.
Annað stigið verður leikið frá 12. til 17. október og þá mun Ólafía Þórunn Kristinsdóttir einnig mæta til leiks. Komast þarf í gegnum þrjú stig úrtökumóta til þess að fá keppnisrétt á LPGA.
