Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga flutti erindi á Ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem fór fram á Hótel Geysi á fimmtudag og föstudag. Aldís fjallaði meðal annars um stefnu sveitarfélaganna í úrgangsmálum og urðunarskatt, sem ríkið ætlar sér að setja á sveitarfélögin.
„En sambandið leggst eindregið gegn frumvarpi um urðunarskatt og kallar eftir víðtæku samráði um mögulega útfærslu slíkrar skattheimtu. Það er auðvitað ekki boðlegt að rúmlega milljarðs álögum sé bara skutlað svona yfir á sveitarfélögin, yfir á íbúa landsins án þess að haft samráð við sveitarfélögin. Þetta er skattur sem fer lóðbeint inn á hvert einasta heimili á Íslandi og mun gera okkur ókleift að virða þær skuldbindingar, sem við höfum lagt upp með varðandi lífskjarasamninginn“, segir Aldís

„Enda er þetta svo óskynsamlegt að það er ekki hægt að lýsa því af því að þessu fylgir engin aðgerð. Ef að allir þessir peningar yrðu eyrnamerktir til umhverfisverkefna, eins og við heyrðum hérna áðan varðandi Umhverfi Suðurlands þá mætti kannski ræða mögulega hvað væri skynsamlegt, ef þeir rynnu bara aftur til sveitarfélaganna til þess að vinna gegn sóun, stuðla að endurnýtingu og minnka urðun, en þetta á bara að fara í ríkiskassann“.