Erlent

Trump virðist hafa látið falsa spákort um fellibylinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Eins og sjá má virðist einhver hafa bætt við opinbert spálíkan frá Veðurstofu Bandaríkjanna til að sýna að braut Dorian gæti náð inn í Alabama eins og forsetinn hélt ranglega fram um helgina.
Eins og sjá má virðist einhver hafa bætt við opinbert spálíkan frá Veðurstofu Bandaríkjanna til að sýna að braut Dorian gæti náð inn í Alabama eins og forsetinn hélt ranglega fram um helgina. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist hafa látið eiga við kort sem sýndi spár yfir hvar fellibylurinn Dorian gæti farið yfir þegar hann ræddi um hættuna af storminum í Hvíta húsinu í dag. Kortið sýndi þannig að mögulega færi bylurinn yfir Alabama þrátt fyrir að engin opinber spálíkön hafi bent til þess. Trump tísti um helgina um að Alabama gæti orðið í vegi fellibylsins og þurfti Veðurstofa Bandaríkjanna að gefa út áréttingu vegna þess.

Dorian hefur valdið mikilli eyðileggingu og mannskaða á Bahamaeyjum og stefnir nú að austurströnd Bandaríkjanna. Í myndbandi sem Hvíta húsið sendi frá sér í dag vegna fellibyljarsins sást Trump með kort sem sýndi spá um leið Dorian. Kortið var merkt Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna.

Einhver virðist hins vegar hafa átt við kortið með svörtum tússpenna til að framlengja mögulega braut fellibyljarins þannig að hún næði inn á suðausturhorn Alabama. Washington Post segir að spár Fellibyljastofnunarinnar hafi aldrei sýnt Alabama á mögulegri braut Dorian. CNN hefur eftir veðurfræðingum stöðvarinnar að ein spá þeirra hafi sýnt möguleika á að Dorian náði til lítils hluta einnar sýslu í Alabama en það kort hafi verið alls ólíkt því sem forsetinn sýndi.

Hvorki Haf- og loftslagsstofnunin (NOAA) sem Fellibyljamiðstöðin heyrir undir né Hvíta húsið vildu svara spurningum um uppákomuna í dag. Þegar Trump var spurður út í kortið og breytingarnar á því á viðburði í Hvíta húsinu í dag var einnig fátt um svör.

„Ég veit það ekki, ég veit það ekki,“ svaraði Trump spurður að því hvort einhver hefði krotað inn á kortið. Fullyrti hann engu að síður ranglega án frekari rökstuðnings að spálíkön hefðu gefið „95% líkur“ á að fellibylurinn næði til Albama. Hélt hann því einnig ranglega fram að Alabama hefði verið í upphaflegri veðurspánni.

Gagnrýnendur forsetans halda því fram að Hvíta húsið hafi átt við kortið til að réttlæta tíst sem forsetinn sendi frá sér um Dorian á sunnudag. Þar varaði hann íbúa Alabama við hættunni af Dorian þrátt fyrir að spálíkön gerðu ekki ráð fyrir að bylurinn næði þangað.

Veðurstofa Bandaríkjanna sendi frá sér tíst skömmu síðar þar sem hún áréttaði að Alabama væri ekki í hættu.

Myndir sem Hvíta húsið birti sjálft af því þegar forstöðumaður NOAA kynnti spár um braut Dorian fyrir Trump um helgina sýna að Alabama var ekki í spálíkönunum. Washington Post segir það lögbrot að falsa opinberar veðurspár.

Uppfært 23:00 Trump forseti tísti öðru korti í kvöld sem hann fullyrti að væri upprunaleg spá um leið Dorian og að næstum því allar niðurstöður líkana sýndu hann fara inn í Alabama. Kortið sjálft sýndi hins vegar að aðeins örfáar niðurstöður líkana bentu til þess að fellibylurinn næði til Alabama. Það virðist koma frá Vatnsumsjónarsvæði Flórída. Neðst á kortinu er letraður fyrirvari um að viðvaranir Veðurstofu Bandaríkjanna komi í staðinn fyrir spána og að ekki ætti að taka mark á henni umfram opinberar spár. Komi upp ruglingur beri að hunsa spána. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×