Skoðun

Á grænni grein 

Agnar Tómas Möller skrifar
Í byrjun sumars mátti gæta nokkurs titrings og óvissu á innlendum mörkuðum. WOW air fallið og Icelandair í erfiðleikum með að vinna sig út úr kyrrsetningu Boeing MAX vélanna. Hagvaxtarspár voru fremur svartsýnar, krónan að veikjast og verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði fjarlægðust verðbólgumarkmið. Nú í lok sumars er staðan önnur. Hagvaxtarspár hafa verið uppfærðar upp á við og greiningaraðilar eru minna svartsýnir. Þá hafa verðbólguvæntingar þokast á ný í átt að markmiði samfara því sem ró er að færast yfir markaði og krónan helst nokkuð stöðug. Það má því með sanni segja að jákvæður meðbyr hafi fylgt nýskipuðum seðlabankastjóra sem tók við embætti í ágúst síðastliðnum.

Í dag eru stýrivextir 3,5 prósent, sem eru lágir vextir í sögulegu samhengi en háir vextir miðað við erlenda stýrivexti og langtíma vaxtamunur á bilinu 2 til 4,5 prósent við flest önnur þróuð ríki. Það er þó margt sem bendir til þess að hinir íslensku stýrivextir muni þokast enn neðar á næstu misserum.

Í fyrsta lagi má nefna að þótt nýbirtar tölur (og leiðréttar) um landsframleiðslu máli mynd af hagkerfi sem byrjað er að hægja nokkuð á sér, virðist lending hagkerfisins ætla að verða mjúk þar sem minnkandi innflutningur og sterkur vöruútflutningur er að þrýsta viðskiptaafgangi upp á nýjan leik, yfir 4 prósent á ársgrundvelli á fyrri helmingi árs, og erlend staða þjóðarbúsins heldur áfram að vaxa, nú yfir 20 prósent af landsframleiðslu.

Í öðru lagi virðist sem svo að lítil hætta sé á verulegu gengisfalli þrátt fyrir þá miklu aðlögun sem hagkerfið hefur gengið í gegn um undanfarið. Þótt rúmlega 100 milljarðar hafi leitað út úr hagkerfinu fyrstu sjö mánuði ársins í formi hreinnar erlendrar verðbréfafjárfestingar, verður „einungis“ 5 prósent veiking krónunnar að teljast mikið styrkleikamerki fyrir íslenska hagkerfið þegar stærsta útflutningsgrein þjóðarbúsins lendir í miklum áföllum á sama tíma og innlendir lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestingarsjóðir flytja umtalsverða fjármuni út úr hagkerfinu.

Í þriðja lagi fara verðbólgukraftar hnígandi ef marka má nýjustu verðmælingu Hagstofunnar. Í nýbirtri verðbólgumælingu ágústmánaðar er verðhjöðnun að mælast að undanskildum áhrifum útsöluloka. Virðist sem svo að verðbólgan fara þverrandi. Það, ásamt hinum sterku verðhjöðnunarkröftum sem eru að magnast upp í Asíu og Evrópu, bendir til þess að verðbólga fari í, og líklega undir, verðbólgumarkmið Seðlabankans áður en langt um líður.

Í ljósi þeirrar stöðu sem að ofan er lýst, ætti Seðlabankinn að geta beitt vaxtatækinu nokkuð óhindrað til að örva hagkerfið á næstu misserum gerist þess þörf, bæði til að lækka fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja, sem og til að gera arðbærar fjárfestingar meira aðlaðandi. Það er hins vegar ákaflega óheppilegt að margt bendir til þess að þrátt fyrir lækkandi stýrivexti muni lánakjör bankanna til fyrirtækja þrýstast upp á komandi vetri. Bæði er það tilkomið vegna hás kostnaðar í bankakerfinu, íþyngjandi skattheimtu og hárra kvaða um bindingu eigin- og lausafjár. Einnig hefur álag á sértryggð skuldabréf, þau skuldabréf sem komast næst ríkisbréfum í öryggi og seljanleika, nær tvöfaldast og því munu há fjármögnunarkjör bankanna á skuldabréfamarkaði einnig endurspeglast í hækkandi kjörum til fyrirtækja.

Eitt mikilvægasta verk Seðlabankans og stjórnvalda á komandi vetri er að smyrja hjól fjármagnsmarkaðarins. Skattlagning og lausa- og eiginfjárkröfur bankanna þurfa að vera meira til samræmis við það sem gerist erlendis, hvetja þarf innlán, hvort sem heldur í bankakerfinu eða í Seðlabankanum, til að leita í arðsamari fjárfestingar og síðast en ekki síst þurfa bankarnir sjálfir að gera rekstur sinn hagkvæmari. Nú loksins þegar hillir undir lok „Vaxtaparadísar Norðursins“ væri verulega sorglegt ef heimili og fyrirtæki fengju ekki að njóta.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×