Samkomulagið við Hafrannsóknarstofnun er hluti af sjálfbærri langtímaverndaráætlun sem miðar að því að laxveiðar á Íslandi verði áfram þær bestu og sjálfbærustu í heimi, að því fram kemur fréttatilkynningu.
Efnt var til blaðamannafundar síðdegis í dag þar sem fulltrúar breska auðmannsins Jim Ratcliffe og Hafrannsóknarstofnunn undirrituðu samkomulag um verkefnið.
„Þarna er verið að hrinda af stað nýrri rannsókn á laxinum fyrir norðaustan, í Vopnafirðinum og Þistilfirðinum og allt sem eykur þekkingu okkar á þessum skemmtilega fiski er kærkomin,“ segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar um verkefnið að loknum blaðamannafundi í dag.
Vill vernda íslenska laxastofninn
Verkefnið nær til fjögurra ára, kostnaðurinn er um áttatíu milljónir og verður doktorsnemi ráðinn til þess að vinna að rannsóknum.Í fréttatilkynningunni segir fulltrúi Ineos, fjárfestingafyrirtækis Ratcliffe um verkefnið, að lífsskilyrði laxins á Norðausturlandi verða bara bætt með sjálfbærri fjárfestingu í jörðum og ám á þessu svæði.
Nýverið keypti Ratcliffe jörðina að Brúarlandi 2 í Þistilfirði og segir það hluta að aðgerðum til þess að vernda íslenska laxastofninn. Þessu utan hefur auðkýfingurinn fjárfest í fjölda jarða á þessum slóðum undanfarin misseri. Fram hefur komið að menn hafi áhyggjur af fjárfestingum erlendra auðmanna á jörðum hér á landi.
„Ég held að í þessu tilfelli, Vonandi hafa menn ekki of miklar áhyggjur því eins og þú sérð er aðaltilgangurinn að vernda umhverfið og laxinn sem lifir í þessu umhverfi. Fyrir utan það er litlu við að bæta. Það sést á viðbrögðum Jims hvað honum þykir vænt um þetta svæði og að hann vill vernda það,“ segir Peter S. Williams, tæknistjóri og yfirmaður fjárfestinga INEOS Group, fjárfestingafélags Ratcliffes.
Eins og fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær vinna stjórnvöld að því að kortleggja jarðir í eigu útlendinga og hafa forsætisráðherra, fjármálaráðherra og samgönguráðherra öll sagt að endurskoða þurfi lög um eignarhald erlendra auðmanna á jörðum hér á landi. Peter segir það ekki hafa áhrif á rannsóknarverkefnið hér á landi.
„Ég held að það hafi engin áhrif á sjálf rannsóknarverkefnin. Við munum augljóslega vinna eftir þeim reglum og innan þess lagaramma sem yfirvöld setja. Það er í góðu lagi okkar vegna. Svo við vinnum innan þess ramma,“ segir Williams.
Munuð þið kaupa meira land?
„Ég tek ekki þátt í þeirri starfsemi svo ég get ekkert sagt um það,“ segir Williams.