Rúnar Alex Rúnarsson fékk á sig fjögur mörk þegar Dijon sótti PSG heim í næst síðustu umferð frönsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.
Leikurinn byrjaði hræðilega fyrir Rúnar og félaga, sem þó vissu fyrirfram að leikurinn yrði þeim erfiður. Angel di Maria kom PSG yfir strax á þriðju mínútu með glæsiskoti við vítateigshornið sem Rúnar gat lítið gert í.
Aðeins mínútu seinna komst di Maria upp að endalínu og sendi boltann fyrir markið þar sem Edison Cavani skallaði boltann í netið af mjög stuttu færi.
Á 36. mínútu kom Kylian Mbappe PSG í 3-0 og voru meistararnir í vænlegri stöðu í hálfleiknum.
Mbappe gerði svo fjórða og síðasta mark leiksins á 56. mínútu. Hann komst einn á móti Rúnari og kláraði færið vel.
PSG er á toppi deildarinnar með 91 stig þegar ein umferð er eftir, 16 stigum á undan Lille. Dijon er hins vegar í 19. sæti með 31 stig.
Fótbolti