Málið snýr annars vegar að frumvarpi ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra sem fjallar um skráningu almannaheillasamtaka sem starfa þvert á landamæri. Með hinu frumvarpinu, sem kemur frá dómsmálaráðherra, var verið að bregðast við athugasemdum sem alþjóðlegur fjármála-aðgerðahópur, FATF, gerði varðandi skort á reglum hér á landi um hvernig eigi að meðhöndla muni og eignir sem hafa verið haldlagðar eða kyrrsettar.
Mælt var fyrir báðum frumvörpum á þriðjudag og þau samþykkt í gær, en þessi stutti tími gerði það af verkum að þeim félögum eða öðrum sem málið varðar gafst ekki kostur á senda inn umsagnir um málið. Það gagnrýnir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata harðlega, en hann gerði athugasemd við þetta í minnihlutaáliti í allsherjar- og menntamálanefnd.
Telur að bregðast hefði átt við fyrr
„Það er mikið ábyrgðarleysi að samþykkja lög með þessum ofboðslega hraði og án þess að það sé hægt að fara í fullnægjandi þinglega meðferð,“ segir Helgi. „Það geta alveg komið upp aðstæður þar sem að það bara þarf að gera það, það hefur komið fyrir áður, en það kemur fyrir í greinagerð frumvarpsins sem við vorum að fjalla um í allsherjar- og menntamálanefnd að þetta vandamál sem að við vorum að fara að laga og var víst lagað, það er búið að liggja fyrir frá því í apríl 2018.“Hann telji þar af leiðandi ekki vera sannfærandi rök fyrir því að málið hafi verið afgreitt með svo miklum hraði. Ein af ástæðunum fyrir því að það lá mikið á að afgreiða málið er sögð vera hættan á því að Ísland myndi mögulega lenda á lista yfir ósamvinnuþýð ríki. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, segist líta málið alvarlegum augum og segir það hafa verið þess eðlis að það þoldi enga bið.
„Það kom skýrsla í fyrra þar sem bent var á ýmsa ágalla í íslensku kerfi og það hefur verið lögð mikil vinna í það að vinna í þeim málum og nú í september kom í ljós að það stæðu einungis örfá atriði eftir og þetta var eitt af þeim málum og þess vegna var brugðist svona hratt við,“ segir Áslaug Arna.
