Erlent

Harðar aðgerðir vegna ljósmyndarinnar örlagaríku

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talið er að konan sé að læra að verða flugfreyja við Guilin-háskóla.
Talið er að konan sé að læra að verða flugfreyja við Guilin-háskóla.
Stjórnendur kínverska flugfélagsins Air Guilin þurfa að taka á sig launalækkun eftir að ljósmynd af konu sem tekin var í flugstjórnarklefa flugvélar félagsins fór í mikla dreifingu á kínverskum samfélagsmiðlum.

Myndin var tekin í janúar síðastliðnum í flugi Air Gulin á milli kínversku borganna Guilin og Yangzhou, að því er breska ríkisútvarpið BBC hafði eftir kínverskum miðlum. Myndin vakti þó ekki athygli á samfélagsmiðlum fyrr en í liðinni viku og flugfélagið greip þá fyrst til aðgerða.

Flugmaðurinn sem talinn er hafa boðið konununni í flugstjórnarklefann hefur verið settur í lífstíðarbann. Hann er þó ekki sá eini sem þarf að glíma við eftirköst hinnar örlagaríku ljósmyndar. Kínverskir miðlar greina frá því í dag að háttsettir yfirmenn flugfélagsins hafi verið áminntir formlega vegna málsins, auk þess sem að laun þeirra hafi verið lækkuð

Þannig greinir CNN frá því að Xu Xin, forstjóri félagsins, hafi hlotið „alvarlega áminningu“ og þriggja mánaða launalækkun. Framkvæmdastjórinn Qu Taoji hlaut einnig aðvörun og þriggja mánaða launalækkun auk þess sem hann var lækkaður um tign.

Þá hlutu aðstoðarframkvæmdastjóri viðhaldsdeildar félagsins, framkvæmdastjóri öryggisdeildar og öryggisstjóri flugfélagsins einnig þriggja mánaða launalækkun.

Flugfélagið rannsakar málið en talið er aðgerðirnar nú séu liður í því að endurheimta traust almennings og fjölmiðla á flugfélaginu, en flugfélagið hefur verið gagnrýnt harðlega á kínverskum samfélagsmiðlum sem og í fjölmiðlum, vegna málsins.


Tengdar fréttir

Ör­laga­rík ljós­mynd úr flug­stjórnar­klefanum

Flugmaður kínverska flugfélagsins Air Guilin hefur verið settur í lífstíðarflugbann eftir að mynd af konu, sem tekin var í flugstjórnarklefa flugvélar undir hans stjórn, fór í mikla dreifingu á kínverskum samfélagsmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×