Martin Hermannsson var öflugur í nokkuð þægilegum sigri Alba Berlin á Löwen Braunschweig í þýsku Bundesligunni í körfubolta í kvöld.
Martin hefur verið að spila mjög vel með Berlínarliðinu í vetur. Hann skoraði 10 stig í 82-74 sigrinum í kvöld en gaf átta stoðsendingar þess aukis og var með einn stolinn bolta.
Ljónin byrjuðu betur í Berlín og voru með 26-18 forystu eftir fyrsta leikhluta og leiddu 43-39 í hálfleik. Heimamenn komu þó miklu sterkari út í seinni hálfleikinn og unnu þriðja leikhlutann 28-10.
Þegar upp var staðið var sigurinn nokkuð þægilegur, 82-74.
Berlín er í fjórða sæti deildarinnar með 13 sigra úr 17 leikjum. Öll liðin þrjú fyrir ofan hafa þó spilað 2-3 leikjum meira.
