Viðskipti innlent

Krefjast þess að laun bankastjóra lækki tafarlaust

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Landsbankinn hefur samtals greitt um 132 milljarða króna í arð á árunum 2013-2018.
Landsbankinn hefur samtals greitt um 132 milljarða króna í arð á árunum 2013-2018. vísir/vilhelm
Félag vélstjóra og málmtæknimanna, VM, segir að hækkun á launum bankastjóra Landsbankans setji kjaraviðræður launafólks í uppnám. Launin verði að lækka strax, ellegar að einhver þeirra sem situr í stjórn Landsbankans í umboði þjóðarinnar verði látinn sæta ábyrgð.

Greint var frá því um helgina að mánaðarlaun bankastjóra Landsbankans, Lilju Bjarkar Einarsdóttur, hefðu hækkað um 1,7 milljónir króna á milli 2017 og 2018. Það nemur 82 prósent hækkun á tíu mánaða tímabili. Bankaráð Landsbankans, sem ákvarðar launin, segir hækkuna í samræmi við starfskjarastefnu bankans - laun Lilju séu samkeppnishæf, en ekki leiðandi.

Guðmundur Helgi Þórarinsson er formaður VM.aðsend
Fjölmargir hafa brugðist ókvæða við hækkunina, jafnt stjórnmálafólk sem og fulltrúar atvinnulífsins. Nú hefur VM bæst í þann hóp, en í tilkynningu frá félaginu segir að venjulegt launafólk geti ekki sætt sig við jafn „gígantíska launahækkun.“

Félaginu þyki auk þess miður að ákvörðunin hafi hvorki verið dregin til baka, né að einhver hafi þurft að „bera ábyrgð á þessum gífurlega dómgreindarbresti.“

Því krefjist VM aðgerða strax. Í tilkynningu sinni teiknar félagið upp tvo möguleika: Annað hvort að laun bankastjóra Landsbankans verði lækkuð tafarlaust eða að einhver verði látinn sæta ábyrgð.

„VM minnir á það að fólk í stjórn Landsbankans situr í umboði stjórnvalda á Íslandi. Það er ekki boðlegt að sífellt skuli vera slegið á putta almenns launafólks á Íslandi á meðan þeir hæst launuðu skammta sér launahækkanir upp á hundruðu þúsunda eða milljóna í hverjum mánuði.“

Þá segir VM það jafnframt vera dapurlegt að hækkunin sé ekki einangrað tilvik. „Það er að verða regla frekar en undanteikning að efsta lag atvinnulífsins er á tugföldum launum þeirra lægst launuðustu. Við það getur venjulegt launafólk ekki sætt sig við.“


Tengdar fréttir

Laun bankastjórans hækkað um 82 prósent

Þann 1. apríl 2018 voru mánaðarlaun bankastjóra Landsbankans hækkuð um 550 þúsund krónur. Tíu mánuðum áður höfðu þau hækkað um 1,2 milljónir. Eru nú 3,8 milljónir. Bankaráð segir þau nú nær því að vera samkeppnishæf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×