Fótbolti

Neville við Solskjær: Hversu langan samning viltu, hvað viltu í laun og hvar á styttan að vera?

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Neville og Ole Gunnar á góðri stundu.
Gary Neville og Ole Gunnar á góðri stundu. vísir/getty
„Ég er með þrjár snöggar spurningar fyrir þig: Hversu langan samning viltu, hvað viltu í laun og hvar viltu fá styttuna af þér?“

Þetta voru fyrstu spurningar Gary Neville, fyrrverandi fyrirliða Manchester United, til Ole Gunnar Solskjær þegar að sparkspekingurinn núverandi tók viðtal við Norðmanninn fyrir beIN-sports eftir kraftaverkið í París í gærkvöldi. Hann, eins og fleiri, vill að Solskjær verði ráðinn til frambúðar.

„Þetta var frábært kvöld, ekki satt? Ég ætla bara að gera mitt besta fram á sumarið og sjá svo hvað félagið ákveður að gera,“ svaraði Solskjær hógvær eftir að snúa við 2-0 stöðu úr fyrri leiknum og komast áfram með 3-1 sigri á Prinsavöllum.

Neville er staðráðinn í að Solskjær eigi að fá starfið og sagði þeim norska og fyrrverandi samherja sínum að það væri bara eitt í stöðunni fyrir forsvarsmenn United að gera.

„Ég heyri að þú heldur áfram að segja þetta en þetta er bara kvöld sem við verðum að muna eftir. Þetta var Manchester United-andinn. Það var svo frábært að hitta Sir Alex inn í klefa eftir leik. Þetta var geggjað kvöld,“ sagði Solskjær.

Neville sagði Solskjær að það væri augljóst að leikmennirnir elskuðu hann en hógvær Solskjær sagði leikmennina vissulega hafa gaman að honum og þjálfarateymi hans en þetta væri allt liðsvinna.

„Ég held að leikmennirnir njóti þess að spila undir okkar stjórn en við viljum bara að þeir bæti sig og upplifi kvöld eins og þetta. Við gerðum það nú saman hérna á sínum tíma,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.


Tengdar fréttir

Solskjær: Þetta er Manchester United

Ole Gunnar Solskjær var skiljanlega í skýjunum með ótrúlegan sigur Manchester United á Paris Saint-German í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Rashford skaut United áfram úr VAR-víti

Manchester United er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir ótrúlega frammistöðu á Parc des Princes þar sem vítaspyrna dæmd eftir myndbandsdómgæslu réði úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×