Birgir hefur komið víða við á starfsferli sínum en hann var aðstoðarforstjóri hjá WOW og forstjóri Iceland Express á tímabili. Hann hefur einnig búið víða erlendis, þar á meðal í Ungverjalandi, Rúmeníu og Búlgaríu, en hann rak eina stærstu bensínkeðju í Austur-Evrópu á tímabili. Auk þess hefur hann búið í Hong Kong og Lundúnum. Margir kunna að muna eftir Birgi sem fyrrverandi trommuleikara þungarokkshljómsveitarinnar Dimmu.
„Rauði þráðurinn í því sem ég hef verið að gera eru fyrirtæki sem eru í einhverskonar umbreytingaferli, í einhverskonar breytingafasa.“ Bætti hann við.
„Þetta er gríðarlega öflugt fyrirtæki og mjög mikilvæg stofnun í okkar þjóðfélagi, og öllum þjóðfélögum. Þetta er mjög mikil áskorun og áhugavert að taka við stjórninni á þessum tímum, mjög umbrotamiklir tímar og mikið af breytingum og mikið af áskorunum þannig að þetta er spennandi.“