Björgvin Páll, sem hefur verið aðalmarkvörður íslenska landsliðsins síðustu ár, skrifaði færslu á Facebook-síðu sína í kvöld þar sem hann sagði sína skoðun.
„Ákvörðunin að velja þessa þrjá ungu og frábæru markmenn í þetta verkefni er frábær ákvörðun, hvernig sem á hana er litið,“ skrifaði Björgvin.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari valdi þá Ágúst Elí Björgvinsson, Grétar Ara Guðjónsson og Viktor Gísla Hallgrímsson í verkefnið. Framundan eru tveir leikir við Tyrkland og Grikkland.
Björgvin Páll hefur ekki spilað mikið með Skjern í vetur, en hann er þar að spila með einum efnilegasta markmanni heims Emil Nielsen.
„Það allt saman gleður mig gríðarelga mikið því að ég hef lagt mikið kapp í að hjálpa þessum magnaða markmanni að taka næsta skref, en hann er í sumar á leiðinni í eitt af betri liðum heims. Ég viðurkenni það fúslega að tímabilið hefur ekkert verið það auðveldasta sem ég hef tekið þátt í og tók það mig smá tíma að kyngja egó-inu og fatta mitt nýja hlutverk.“
„Minn tími mun koma aftur, bæði í félagsliðinu og í landsliðinu, en hann á ekki að koma á kostnað einhvers annars eða vegna þess að ég á svo og svo marga landsleiki,“ skrifaði Björgvin Páll.
Ísland mætir Grikkjum ytra þann 12. júní og tekur svo á móti Tyrkjum í Laugardalshöll 16. júní.