Valdís Þóra Jónsdóttir er að öllum líkindum úr leik á Lalla Maryem mótinu í golfi, en mótið er hluti af Evrópumótaröð kvenna.
Valdís lauk leik á öðrum hring á samtals sjö höggum yfir pari í mótinu en búist er við því að niðurskurðurinn miði við fjögur högg yfir pari.
Hringurinn í dag byrjaði ekki vel hjá Valdísi, hún fékk þrjá skolla á fyrstu sex holunum, fugl á áttundu holu en svo tvöfaldan skolla á þeirri níundu.
Seinni níu holurnar byrjuðu betur og fékk hún fugl á bæði 13. og 14. holu, en í gær fékk hún skolla á þeim báðum. Tvöfaldur skolli kom hins vegar á fimmtándu holu og restina fór hún á pari.
Þegar þetta er skrifað er Valdís jöfn í 81. sæti og þremur höggum frá niðurskurðinum. Fjölmargir kylfingar eiga eftir að ljúka leik en þó verður að teljast ólíklegt að Valdís fari áfram.

