Erlent

Gefur lítið fyrir viðræður við Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Ali Khamenei, leiðtogi Íran.
Ali Khamenei, leiðtogi Íran. AP/Skrifstofa Khamenei
Ali Khamenei, leiðtogi Íran, segir ekki koma til greina að opna viðræður við Bandaríkin. Mögulega væri hægt að ræða við Bandaríkin í samfloti við önnur ríki, ef Bandaríkin gangi aftur að kjarnorkusamkomulaginu svokallaða.

Samkomulagið var gert á milli Íran, Bandaríkjanna, Kína, Rússlands, Bretlands, Frakklands og Þýskalands árið 2015 og var því ætlað að binda enda á kjarnorkuvopnaáætlun Íran. Í skiptum fyrir að þvingunum og öðrum refsiaðgerðum yrði aflétt samþykktu yfirvöld Íran að hætta við þróun kjarnorkuvopna í minnst tíu ár og hleypa eftirlitsaðilum í landið.

Trump rifti samkomulaginu og beitti aftur refsiaðgerðum gegn Íran en yfirvöld landsins eru nú byrjuð að auðga úran á nýjan leik.

Nýverið sagði Trump að hann gæti hitt Hassan Rouhani, forseta Íran, á aðalfundi Sameinuðu þjóðanna í New York seinna í mánuðinum.

Khameini segir það ekki koma til greina. Enginn íranskur embættismaður muni ræða við aðila frá Bandaríkjunum, því það sé markmið Bandaríkjanna með auknum þrýstingi á Íran að þvinga þá að samningaborðinu.

„Ef við látum undan þrýstingi þeirra og ræðum við Bandaríkjamenn, mun það sýna þeim að þrýstingur þeirra á Íran hafi virkað. Þeir ættu að vita að stefna þeirra skiptir okkur ekki máli,“ hefur Reuters eftir Khamenei.



Spenna á milli Bandaríkjanna og Íran er mikil og hefur aukist til muna á undanförnum dögum eftir að umfangsmikil árás var gerð á stóra olíuvinnslu í Sádi-Arabíu. Bandaríkjamenn segja vísbendingar um að Íran hafi framkvæmt árásina en Íranar neita því. Hútar, sem eiga í átökum við Sáda í Jemen og eru studdir af Íran, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni.

Umfang árásarinnar og nákvæmni þykir þó til marks um að Hútar hafi ekki burði til að gera slíka árás.

Sjá einnig: Trump segist til í slaginn vegna árásar í Sádi-Arabíu



Yfirvöld Sádi-Arabíu segja árásina vera fordæmalausa og mikið skemmdarverk. Sameinuðu þjóðunum og alþjóðlegum sérfræðingum hefur verið boðið til Sádi-Arabíu til að rannsaka árásina en Sádar hafa ekki sakað Íran með beinum hætti.

Í samtali við AP fréttaveituna segja heimildarmenn innan ríkisstjórnar Trump að til greina komi að auka viðbúnað Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum en engin ákvörðun hafi verið tekin enn. Nú þegar er flugmóðurskipið USS Abraham Lincoln á vettvangi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×